145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

stöðugleikaskattur og stöðugleikaframlög.

[11:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil að það sé alveg á hreinu í þessari umræðu að við höfum að störfum samráðsnefnd þar sem við sitjum saman með Seðlabankanum og fulltrúum úr forsætisráðuneytinu, svona stýrinefnd um losun fjármagnshaftanna. Að sjálfsögðu hef ég verið í samtali við okkar aðila og fulltrúa í framkvæmdahópnum. Þeir hafa lýst því yfir að miðað við framkomnar tillögur þá muni þeir styðja það fyrir sitt leyti, muni mæla með því að málið verði afgreitt. Ég hef fengið lýsingu á því hvernig þeir sjá fyrir sér að vandinn verði leystur og þess vegna erum við að undirbúa að tekin verði saman kynning á þessu.

Ég vek athygli á því að þegar eignum er dreift út úr slitabúunum þá fer hluti af eignunum til dæmis til eignarhaldsfélags Seðlabankans. Við þurfum þá ekki að hafa áhyggjur af því, það fer hreinlega beint inn í Seðlabankann og ESÍ er risastór kröfuhafi í búin. Ég bendi líka á skattana sem við erum að taka, meðal annars á þessu ári. Og ég vek athygli á því að með stöðugleikaframlagsleiðinni þá falla öll slitabúin (Forseti hringir.) frá öllum mögulegum kröfum til þess að endurheimta slíka skatta. Það er ekki niðurstaðan ef menn fara skattaleiðina, þ.e. leggja á stöðugleikaskattinn, þá gætu slík dómsmál (Forseti hringir.) staðið áfram opin. En þarna geta verið undir um 70 milljarðar. Útgáfa skuldabréfa, afhending eigna, allir þessir einstöku liðir samanlagt munu að mínu áliti leysa vandann.