145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

refsirammi í fíkniefnamálum.

[12:01]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fara yfir í allt aðra sálma. Það hefur verið svolítil umræða, og hún skýtur oft upp kollinum hér á landi, um refsiramma í fíkniefnamálum. Í veröldinni, í heiminum, er mikil gerjun í þessum málaflokki. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er til dæmis verið að vinna að stefnumörkun sem lýtur að því að afglæpavæða fíkniefni. Þjóðir eru að lögleiða kannabis og nú síðast fengum við fregnir af kosningunum í Kanada þar sem Justin Trudeau og Frjálslyndi flokkurinn hefur það á stefnuskrá að lögleiða kannabis þar. Fimm fylki í Bandaríkjunum hafa lögleitt kannabis og það virðist vera þróun í þessa átt.

Mér finnst mikilvægt að ræða þetta á Íslandi. Við áttum ágætan fund í allsherjar- og menntamálanefnd nú í upphafi vikunnar þar sem þessi mál bar á góma. Ég sjálfur er búinn að velta þessu fyrir mér í mörg ár eins og sjálfsagt margir aðrir, hvað best sé að gera, og mér finnst mjög mikilvægt að ræða þessi mál vegna þess að sterkur vitnisburður er að koma upp á yfirborðið með rannsóknum um að opinber stefna hingað til í fíkniefnamálum, sem snýst um refsingar og fangelsisvistun og að hafa þessi mál í dómskerfinu, sé ekki að virka, hún sé jafnvel að eyðileggja líf fólks. Og þegar pólitísk stefnumörkun er að eyðileggja líf fólks þá þarf að hugsa málið, þá þarf að breyta um kúrs og maður þarf að leggja við hlustir.

Þegar þjóðir eins og Kanada ákveða að lögleiða kannabis og telja að það sé betri leið til að glíma við neyslu kannabis að hafa hana uppi á yfirborðinu og innan lagaramma er ég kominn á þá skoðun að það væri skynsamlegt að lögleiða kannabis. Ég er kominn á þá skoðun að við þurfum að stíga skref í afglæpavæðingu annarra eiturlyfja til að gera neyslu eiturlyfja að heilbrigðisvandamáli og glíma við neyslu eiturlyfja með mannúð að leiðarljósi, með meðferðarúrræðum.

Ég vil spyrja hæstv. innanríkisráðherra um viðhorf hennar til þessara mála. Er hún fylgjandi lögleiðingu kannabis? Er hún fylgjandi afglæpavæðingu fíkniefna og stefnubreytingu í þessum efnum? Ekki einföld spurning en ég læt vaða.