145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

refsirammi í fíkniefnamálum.

[12:07]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að ég taki undir það með hv. þingmanni að það sé sjálfsagt fyrir okkur að ræða þessa hluti ítarlega og fara yfir þá reynslu sem við búum yfir og önnur lönd einnig. Ég held reyndar að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi sett slíka vinnu í gang á vettvangi heilbrigðisráðuneytisins, ég held að það sé von á skýrslu um þessi álitamál þegar kemur að heilbrigðiskerfinu. Það verður fróðlegt að sjá niðurstöðu hennar og hvaða ljósi hún varpar á þessa umræðu alla.

Þarna liggja grundvallarspurningar, nokkuð stórar, undir og krefjast þess að ítarlega verði farið yfir þær. Svo getur maður haft ákveðnar prinsippskoðanir á því hvernig hlutirnir eigi að vera og ég held ég bíði með að lýsa þeim prinsippskoðunum mínum í málinu í dag en þær eru svo sannarlega fyrir hendi, bæði í þessum málum og fjöldamörgum öðrum. Hvaða leiðir og hvaða vandamál er verið að leysa? Það er kannski fyrsta spurningin. Hver er vandinn og hvernig ætlum við að leysa hann, er þetta leiðin til þess?