145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

flóttamannamálin.

[12:14]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er dálítið snúið, eins og hæstv. ráðherra nefnir, vegna þess að ég held að við viljum flest sjá að það sé eitthvert kerfi sem hyglir ekki einum umfram annan í gangi. Hins vegar má kerfið ekki verða svo stíft að mannúðarsjónarmiðunum sé ýtt til hliðar vegna þess að allir þurfa að passa inn í eitthvert box. Það er þar sem vandinn liggur í þessum málum. Við getum kannski straujað inn eitthvert kerfi í ýmsum öðrum málaflokkum en þessum viðkvæmu málaflokkum þar sem um er að ræða fjölskyldur, sérstaklega börn. Mér finnst við þurfa að fara aðeins í gegnum það og tek undir með hæstv. ráðherra að þetta er lítill tími til þess.

En mig langaði að byrja þessa umræðu: Hvernig getum við þrætt mannúðarsjónarmiðin inn í kerfið þar sem við reynum samt að gæta jafnræðis? Þetta er snúið mál, mér finnst það að minnsta kosti ekki blasa við. En (Forseti hringir.) mér finnst mikilvægt að við gerum það. Þangað til við erum búin að ná að koma upp einhverju mannúðlegra kerfi en ég tel að við séum með í dag, verðum við þá ekki á meðan að horfa til einstakra mála sérstaklega?