145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

flóttamannamálin.

[12:15]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við ræðum þetta vel í þinginu, ekki síst í þeim aðstæðum sem núna eru uppi í heiminum vegna flóttamannamála. Það er að mörgu leyti mjög óvenjulegt ástand sem við eigum við. Við erum að tala um tiltekna þjóð ef við tökum Sýrlendinga og reyndar nágrannalöndin sem eru í mjög óvenjulegri stöðu. Við þyrftum kannski líka svolítið að átta okkur á því til hvers þessi hælisleitendakerfi eru til. Þau eru til þess að taka á móti fólki sem er í mikilli neyð, þess vegna þarf svolítið að velta fyrir sér hvaða hópar það eru. Ég held að það sé mjög gott fyrir okkur að taka slíka umræðu í þinginu.

Varðandi Grikkland er ekki sent til baka þegar umsóknir eru enn þá inni í hælisferlinu. Þegar þær eru komnar út úr því gilda önnur lögmál. Menn geta auðvitað spurt sig hvort það eigi að vera þannig, en þannig er það. Það er mjög erfitt að fara að brjótast út úr því án þess að gera einhverjar dramatískar breytingar. (Forseti hringir.) Slíka umræðu þarf að taka mjög djúpt áður en slíkar ákvarðanir eru teknar.