145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

hælisleitendur.

[12:16]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég er á svipuðum slóðum og síðasti þingmaður sem var að ræða við hæstv. innanríkisráðherra. Þetta eru, eins og hér kom fram, mjög stór, vandmeðfarin og erfið mál. Hæstv. innanríkisráðherra lét þau orð falla 5. október að hælisleitendur eða flóttamenn yrðu ekki sendir til Ítalíu, Grikklands og Ungverjalands. Hún dró þá fullyrðingu kannski aftur til baka þegar hún sagði, með leyfi forseta:

„… það hefur engu að síður verið þannig að þegar kemur að ungum karlmönnum hafa þeir, alla vega lengst af fram til þessa, verið endursendir til Ítalíu.“

Við höfum síðan séð úrskurði forstjóra Útlendingastofnunar þar sem hann talar um þau tilteknu mál sem nefnd hafa verið hér í fjölmiðlum varðandi albönsku og sýrlensku fjölskyldurnar, að það verði ekki endurskoðað og ekki sé forsenda til þess í þeim lögum sem Alþingi setur. Ég spyr hvort við getum gert eitthvað til að breyta því.

Í svari ráðherra og ráðuneytisins til Stundarinnar, sem birtist í gær, er sagt að unnið sé að söfnun upplýsinga og gagna sem verði lögð til grundvallar ákvörðun um að endursenda flóttafólk og beita Dyflinnarákvæðinu.

Þá er vert að spyrja hæstv. ráðherra: Er það alveg öruggt að við sendum ekki hælisleitendur til Grikklands, Ítalíu og Ungverjalands? Og hvernig er staðan í þessari vinnu, þ.e. um mótun stefnu um endursendingu hælisleitenda til þessara landa á grundvelli títtnefndrar Dyflinnarreglugerðar? Verða hælisleitendur sendir þangað eða ekki? Hver er pólitísk stefna ráðherrans? Og ekki síst: Hvernig er framkvæmd mála meðan verið er að vinna að þessu í ráðuneytinu?