145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[13:51]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Í svari við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur um þessi málefni á síðasta þingi svaraði hæstv. umhverfisráðherra eftirfarandi spurningu: Telur ráðherra að 32. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, veiti fullnægjandi heimild til gjaldtöku á náttúruverndarsvæðum miðað við 12. gr. sömu laga þar sem kveðið er á um rétt almennings til að fara um landið?

Svarið er mjög skýrt, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson fór yfir hér áðan, og ég ætla að vitna til, með leyfi forseta:

„Í 1. mgr. 32. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, segir að Umhverfisstofnun eða sá aðili sem falinn hefur verið rekstur náttúruverndarsvæðis geti ákveðið gjald fyrir veitta þjónustu. […] og skuli þeim tekjum varið til eftirlits, lagfæringar eða uppbyggingar svæðisins eða aðkomu að því. Í ákvæðinu er skýrt kveðið á um að eingöngu getur verið um tvenns konar gjöld að ræða, þ.e. annars vegar gjald fyrir veitta þjónustu og hins vegar aðgangsgjald þar sem spjöll hafa orðið á náttúrunni af völdum ferðamanna eða hætta er á slíkum spjöllum. Ákvæðið veitir því ekki heimild til almennrar gjaldtöku á náttúruverndarsvæðum …“

Og áfram heldur ráðherra í sínu svari, með leyfi forseta:

„Í 32. gr. er einnig sett það skilyrði að rekstraraðili náttúruverndarsvæðis hafi gert samning við Umhverfisstofnun um rekstur svæðisins …“

Og svari sínu lýkur hæstv. ráðherra á eftirfarandi:

„Ef tekið er gjald fyrir aðgang að náttúruverndarsvæði án þess að skilyrði 32. gr. séu uppfyllt er sú gjaldtaka óheimil samkvæmt lögum.“

Það er svarið sem ráðherra hæstv. gaf á síðasta þingi við sömu spurningu; er sú gjaldtaka óheimil samkvæmt lögum. Svo kemur hún hér upp nú og segir að hún sé ósammála sjálfri sér um ólögmætið (Gripið fram í.) — hún sé ósammála sjálfri sér um ólögmætið í þessu svari hér.

Þá spyr ég: Af hverju beitir ráðherra sér ekki fyrir því að úr þessu verði skorið fyrir dómstólum? (Forseti hringir.) Ef það leikur einhver minnsti vafi á því, af hverju beitir ráðherrann sér þá ekki fyrir því að úr þessu verði skorið? Hverra hagsmuna er hún þá fyrst og fremst að gæta (Forseti hringir.) með því að gera það ekki, að láta ekki skera úr um það, almannahagsmuna eða sérhagsmuna?