145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við aftur þetta vonda mál sem við höfum rætt áður, bæði á fyrra þingi og auðvitað í gær. Það sem maður tekur helst eftir er að rökin fyrir málinu eru engu sterkari en þau voru í fyrra og þá verður maður að velta fyrir sér hver tilgangurinn sé með því að leggja það fram. Sú hugmynd að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun Íslands eins og lagt er til samkvæmt þessu frumvarpi og flytja verkefnin inn í utanríkisráðuneytið virðist vera komin frá einum stað, einum stað af mögulega þremur þar sem hv. starfsmaður Rauða krossins, Þórir Guðmundsson, lagði til þrjá kosti. Ég hef tekið eftir því í umræðunni að hv. flutningsmenn eða stuðningsmenn frumvarpsins virðast ekki hafa athugað hina kostina eða gefið þeim í raun séns. En í áfangaskýrslu sem Þórir Guðmundsson gerði um kosti framtíðarskipulags Þróunarsamvinnu Íslands voru þrjár tillögur, þar af tvær sem honum þykir samkvæmt okkar skilningi í utanríkismálanefnd enn þá koma til greina. Önnur þeirra hefur hins vegar ekki verið alvarlega rædd hér.

Fyrsta tillaga hans var að Þróunarsamvinnustofnun Íslands rynni inn í utanríkisráðuneytið og yrði hluti af þróunarsamvinnuskrifstofu. Önnur tillaga var að skipulagið yrði óbreytt að mestu en ákveðinn tilflutningur verkefna yrði milli Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og ráðuneytisins, þar á meðal að stofnunin tæki við öllum tvíhliða verkefnum um árangursmat og eftirlit yrði hjá utanríkisráðuneyti. Í þriðja lagi lagði sami maður til, og hafði nú síðast þegar hv. utanríkismálanefnd fjallaði um málið ekkert dregið úr þeim kosti eða gert að verri kosti en hinum, að Þróunarsamvinnustofnun Íslands tæki við helstu hlutverkum þróunarsamvinnuskrifstofu sem yrði lögð niður en stefnumótun yrði verkefni á alþjóðaöryggisskrifstofu ráðuneytisins. Það er tillaga sem hv. þingmenn meiri hlutans og stuðningsmenn þessa frumvarps virðist hvorki hafa íhugað alvarlega né rökstutt hvað þá meira. Nógu illa gengur þeim að rökstyðja þessa tillögu, svo mikið er víst.

Það má einnig nefna að nú eiga sér stað miklar hræringar í heiminum sem koma til með að hafa áhrif á þróunarsamvinnu í nánustu framtíð. Þá hefði maður haldið að mun nær væri að leyfa þeirri stofnun sem er mærð víða, stendur við sitt gagnvart fjárlögum og enginn virðist geta gagnrýnt faglega og enginn virðist hafa áhuga á að gagnrýna faglega, að starfa áfram óáreitt þegar breytingar í heiminum krefjast þess síst af öllu að við hrærum til í þessum málaflokki. Sömuleiðis hafa margir þingmenn bent réttilega á að með því að leggja stofnunina niður og flytja verkefnin inn í hæstv. utanríkisráðuneytið sé hætta á pólitískum afskiptum af málaflokknum á þeim sviðum þar sem hann ætti helst að vera faglegur. Auðvitað er heildarstefnumótun í málaflokknum pólitísk. Málaflokkurinn er í sjálfu sér í grundvallaratriðum pólitískur. En þegar kemur að því að finna út úr því hvað sé best að gera hverju sinni, greina stöðuna í öðrum löndum og finna út úr því hvað sé best að gera, þá tel ég það vera faglegar spurningar, ég held að allir telji það, sem eiga heima á faglegum stað, ekki í höndum stjórnmálamanna, sér í lagi ekki hæstv. utanríkisráðherra.

Sömuleiðis stingur í stúf að eitt af meintum markmiðum með þessari breytingu er að auka hagkvæmni eða eitthvað því um líkt, en samt á þetta ekki að hafa nein áhrif á ríkissjóð, enda kemur fram í umsögn hæstv. fjármálaráðuneytis að ekki sé gert ráð fyrir breytingum gagnvart starfsfólki eða húsnæði, alla vega ekki strax. Þá veltir maður auðvitað fyrir sér nákvæmlega hvaða hagkvæmni þetta á að vera. Það tengir málið yfir í það sem ég verð að kalla dularfullu embættismennina. Í nefndaráliti minni hlutans kemur fram um það, og ég les bara orðrétt, með leyfi forseta:

„Svo virðist sem það hafi verið staðföst stefna embættismanna utanríkisráðuneytisins um langt skeið — en ekki stjórnmálamanna – að leggja niður ÞSSÍ. Í fréttaskýringu sem birtist 4. mars 2015 í Heimsljósi, veftímariti um þróunarmál, segir að á síðustu tuttugu árum hafi a.m.k. sex sinnum verið gerðar tilraunir af embættismönnum til að leggja ÞSSÍ niður og færa verkefnin inn í utanríkisráðuneytið. Slíkar tillögur hafi verið færðar í tal við flesta, ef ekki alla, utanríkisráðherra sem komið hafa til starfa í ráðuneytinu frá aldamótum. Viðbrögð ráðherranna hafa verið með ýmsum hætti, sumir hafa kosið að hafa skipulagið óbreytt en aðrir hafa fallist á sjónarmið embættismannanna en verið stöðvaðir af Alþingi. Einn ráðherra, Davíð Oddsson, komst að þveröfugri niðurstöðu og mælti með því að öll alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands færðist yfir í ÞSSÍ. Minni hlutinn telur að það sé hugmynd sem miklu frekar ætti að skoða til þrautar fremur en þá leið að leggja ÞSSÍ niður.“

Ég veit ekki hvernig hæstv. utanríkisráðherra er vanur að móta sínar tillögur, en þetta hljómar allt eins og tillaga sem hafi lengi verið til staðar, menn hafi beðið eftir því að leggja hana fyrir einhvern hæstv. utanríkisráðherra sem hefði í sjálfu sér ekki endilega sterkar skoðanir á málinu, en hæstv. utanríkisráðherra er þó í ríkisstjórn sem hefur alveg sérlegt lag á því að leggja fyrir þingið mál sem eru gerð til þess eins að þvælast fyrir en ekki til þess að skila raunverulegum árangri. Í það minnsta hefur ekki gengið að rökstyðja þetta mál, enda vont mál.

Talandi um hagkvæmni þá kemst ég ekki hjá því að minnast á það að Alþingi hefur áður tekið ákvörðun um hvernig eigi að haga fjárútlátum í þessum málum. Þá verð ég að nefna þingsályktunartillögu sem var samþykkt samhljóða árið 2011 um að framlög Íslands til þróunarsamvinnu ættu að nema 0,7% af vergum þjóðartekjum á endanum. Þar fylgdi áætlun um hvernig ætti að ná þessu markmiði. Nú er ljóst að við nálgumst ekki það markmið heldur erum að fjarlægjast það, alla vega í þeim skilningi að þessar tölur hækka ekki í takt við tímann og hlutfallið er enn þá 0,21%, hefur lækkað úr því sem áður átti að vera sem er 0,23%. Reyndar átti hlutfallið að vera samkvæmt tillögunni sem var samþykkt samhljóða á Alþingi 0,25% árið 2013 og 0,28% árið 2014. Það kemur enn fremur fram í þeirri tillögu að við ættum að reyna að gera betur innan tíu ára. Innan tíu ára frá 2011 er auðvitað 2021. Ef við erum núna í 0,21% og viljum ekki fara upp í 0,23% þrátt fyrir það að hagkerfið sé að taka við sér og gott betur, hvernig í ósköpunum ætlum við að ná meiru en 0,7% árið 2021 miðað við þetta, miðað við þessa stefnu? Ég sé ekki hvernig á að vera hægt að gera það nema það verði algjör viðsnúningur mjög snemma á næsta kjörtímabili, sem ég vona auðvitað að verði, en þessi áætlun miðar út frá því að gera þetta í skrefum. Það er ekki verið að taka þau skref núna. Það þykir mér mjög miður.

Virðulegi forseti. Mér þykir það þess vegna, ég verð að segja það, ákveðin hræsni að ætla núna að auka hagkvæmni án þess þó að geta sýnt fram á neinar tölur í þeim skilningi, án þess að breyta fjölda starfsfólks og án þess að skipta um húsnæði fyrir Þróunarsamvinnustofnun Íslands, þ.e. starfsfólk sem þar vinnur nú en mun væntanlega starfa hjá utanríkisráðuneytinu ef frumvarpið verður að lögum. Við erum að velta fyrir okkur hagkvæmni núna sem við getum ekki einu sinni sýnt fram á, en hvað erum við að gera til þess að ná þeim markmiðum að eyða meiri peningum í þróunarsamvinnu, sem við eigum vitaskuld að gera? Mér þykir það eiga svolítið við um þróunarsamvinnu svipað og um loftslagsbreytingar, allir virðast vera tilbúnir til þess að taka málaflokkinn alvarlega og gera eitthvað í honum og hafa miklar áhyggjur af þessu og jú, nú þurfum við öll að taka höndum saman, þar til það fer að kosta eitthvað. Þá renna allt í einu á menn tvær grímur, þá hljómar það skyndilega ekki nógu vel. Sem dæmi þurfum við að minnka útblástur af brennslu olíu, en við verðum samt að ná í meiri olíu og brenna hana.

Virðulegi forseti. Ef við ætlum að hjálpa fólki þá þurfum við að gera það og þá þurfum við að leggja eitthvað til. Viljinn er ekki allt sem þarf. Það þarf meira en vilja. Það þarf að standa við viljann. Það er ekki hugurinn sem gildir. Það er nauðsynlegt að hafa góðan hug, en hann er ekki nægur einn og sér. Við verðum að standa við það sem við hyggjumst gera. Það er ekkert mál fyrir hið háa Alþingi árið 2011 að klappa sjálfu sér á bakið fyrir það glæsilega verk að ætla að ná hlutfalli vergra þjóðartekna sem renna til þróunarsamvinnu upp í 0,7%, en ef ekki er staðið við það, virðulegi forseti, er það hræsni. Það er til orð yfir þessa hegðun, það orð er hræsni.

Það að við séum núna að ræða frumvarp um að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun af ástæðum sem enginn virðist þekkja nógu vel til þess að geta rökstutt almennilega, í samhengi við það að okkur hefur mistekist að uppfylla eigin áætlanir, áætlanir þingsins, ekki ríkisstjórnar heldur þingsins, gengur ekki, virðulegi forseti. Þetta gengur ekki. Við eigum að byrja á því að standa við gefin loforð áður en við förum að leggja niður stofnanir, sér í lagi ef það er vegna meintra samstarfsörðugleika eða þessara dularfullu embættismanna.

Þetta mál var lagt fram á seinasta þingi og fór til nefndar. Það komu umsagnir eins og gengur og gerist og allar umsagnir sem bárust þá voru neikvæðar nema umsögn Rauða kross Íslands sem var hlutlaus, þar var frumvarpið þó gagnrýnt vissulega en ekki tekin afstaða til þess í sjálfu sér hvort fara ætti eftir heildarmarkmiðum frumvarpsins, enda er það nú þannig eins og Þórir Guðmundsson, sá mæti maður, benti sjálfur á að hann var og er held ég enn þá starfsmaður Rauða krossins. Hann lagði sjálfur til að við mundum skoða tillögur hans sérstaklega í því ljósi, enda er þetta hógvær og málefnaleg stofnun og hann hógvær og málefnalegur maður. Því gefur að skilja að umsögn Rauða krossins hafi verið hlutlaus þegar kemur að þessu. Hins vegar lagði Rauði krossinn einnig til að lögð yrði fram áætlun um hvernig markmiðunum um 0,7% af vergum þjóðartekjum yrði náð með skýrum og áfangaskiptum tímasetningum. Þetta kemur upp aftur og aftur, eðlilega, vegna þess að þetta er markmið sem Alþingi setti sér en ríkisstjórnin fylgir ekki. Kunnuglegt stef þar, því miður.

Alþýðusamband Íslands sendi inn umsögn á seinasta þingi. Hún var vitaskuld neikvæð og þar var bent á að diplómatískar áherslur gætu farið að blandast inn í þróunarsamvinnuna sem væri mjög slæmt. Sömuleiðis benti Alþýðusamband Íslands á að almenn og breið pólitísk samstaða hefði verið um þetta mál sem betur fer og við viljum væntanlega halda því áfram. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna menn vilja fara að blanda pólitíkinni meira inn í faglegt ferli sem enginn ágreiningur virðist vera um, gagnvart stofnun sem stendur við sitt gagnvart fjárlögum sem við vitum öll að er ekki sjálfsagt þegar kemur að stofnunum ríkisins, því miður.

Félagsvísindasvið Háskóla Íslands lagði einnig fram umsögn á seinasta þingi og hún var vitaskuld neikvæð. Enn og aftur kemur í ljós þá sem nú að engin heilsteypt rök eru fyrir þessu máli. Ég er farinn að halda það, virðulegi forseti, að hæstv. utanríkisráðherra sé annaðhvort sé að kasta hérna fram einhverju máli sem hann hefur fengið hjá sínum dularfullu embættismönnum til þess að hafa einhver mál að leggja fram yfir höfuð, eða hann sé hreinlega að gera gys að þinginu. Ég velti því stundum fyrir mér hvort hann setji einhvers staðar og hlæi að Alþingi við umfjöllun þessa máls, sér í lagi vegna þess að það virðist ekki vera mikið af öðrum málum hér til þess að tala um. En það er önnur saga.

Það sem eftir stendur að mínu mati, og ég nefndi þetta einnig að mig minnir í ræðu á síðasta þingi, er að þetta mál hefur einkenni þess sem maður sér allt of oft frá hæstv. ríkisstjórn, sér í lagi þori ég að fullyrða frá hv. Framsóknarflokki í ríkisstjórn, og það eru sífelldar tilraunir til þess að auka vald ráðherra. Það er í raun og veru sjálfstætt efni sem við ættum að ræða sérstaklega eins og reyndar svo margt annað þegar kemur að stjórnsýslunni og því hvernig farið er með vald. En ráðherrum þessarar ríkisstjórnar og sér í lagi hv. Framsóknarflokks virðist finnast það afskaplega sjálfsagt að þeir fái að ráða sem mestu, þeir séu með puttana í sem mestu. Það er mjög varhugaverð þróun. Hún ætti að vera í hina áttina.

Samfélag okkar, sér í lagi eftir hrun og með hliðsjón af tæknibreytingum, auðveldari og víðtækari upplýsingagjöf og auðveldari þátttöku almennings og ytri stofnana í ýmsu ákvarðanaferli, ætti að gera það auðveldara að flytja valdið frá ráðherrum og eitthvert annað, t.d. hingað inn á þing þar sem við erum alla vega í beinni útsendingu, eða eitthvert annað. Það gildir einu í sjálfu sér gagnvart spurningunni um vald því eins og ég sagði á síðasta þingi, vald er viðbjóður. Við eigum ekki að líta á vald sem eitthvað gott, sem sjálfstæða lausn á málum. Vald er ill nauðsyn. Þegar það hættir að vera nauðsyn þá verður það bara illt. Það er enn ein ástæðan fyrir því að ég sé ekki ástæðu til þess að leggja Þróunarsamvinnustofnun Íslands niður, ég er á móti þessu frumvarpi vegna þess að áttin sem farin er með valdið í því er hættuleg. Hún getur haft verri birtingarmyndir en þessa, svo mikið er víst, en það verður að svara spurningunni um það hvers vegna á að auka vald ráðherra. Það er spurning sem við eigum alltaf að spyrja okkur, ekki bara í þessu máli heldur almennt. Ég veit að brátt kemur upp væntanlega umræða um enn eina tilraun hæstv. forsætisráðherra til þess að ná enn þá meiri völdum, en það er efni í aðra ræðu við annað tilefni og meiri tíma vonandi.

Eftir alla umræðuna sem hefur átt sér stað á þessu þingi um þetta mál, eftir þær umsagnir sem hafa borist, eftir umræðuna í hv. utanríkismálanefnd, er kýrskýrt að frumvarpið er ekki sett fram til þess að auka hagkvæmni, það stenst einfaldlega ekki. Það kemur hvergi fram í hverju þessi hagkvæmni á að vera fólgin. Það er vísað til þess að þetta komi fram til þess að laga einhverja meinta samstarfsörðugleika, en það stenst ekki. Það var skoðað í hv. nefnd, það stenst ekki. Rökin fyrir þessu frumvarpi standast ekki. Stefnan sem frumvarpið fer í átt til er vond.

Starf Þróunarsamvinnustofnunar Íslands er mikilvægt. Málaflokkurinn er mikilvægari núna en oft áður. Og hann þarf frið, Þróunarsamvinnustofnun Íslands þarf frið til þess að geta starfað eins og hún telur faglega best til þess að vinna að málaflokknum með sæmd, þannig að við nýtum fjármagn sem best og komum okkar verkum sem best áleiðis út í heim í átt til friðar og lýðræðis.