145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:32]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn sagði undir lok ræðu sinnar að rökin sem færð væru fram í þessu máli stæðust ekki. Engri aukinni hagkvæmni væri náð. Samstarfsörðugleikar, sem ýjað hefði verið að, ættu sér ekki stoð í raunveruleikanum, það hefði komið í ljós í störfum utanríkismálanefndar.

Mér skilst að hún hafi aðallega starfað á síðasta kjörtímabili, virðulegi forseti, og finnst það nokkuð einkennilegt, svona út af fyrir sig, að nýr formaður utanríkismálanefndar hafi ekki viljað kynna sér betur þetta mikla mál en raun virðist bera vitni. Mér sýnist eins og þessu máli hafi verið þjösnað í gegnum nefndina í haust. En þetta er nú útúrdúr.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hver telur hann að sé raunveruleg ástæða þess að ráðherrann leggur þessa líka gífurlegu áherslu á að flýta þessu máli? Getur það verið rétt, sem mér hefur dottið í hug, að ráðuneytið sé farið að vinna eftir þessum nýju lögum án þess að þau hafi verið samþykkt og þess vegna liggi reiðinnar býsn á að koma þeim í gildi? Eða hver heldur þingmaðurinn að sé hin raunverulega ástæða fyrir þessu öllu saman?