145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:39]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það er nú margt sem ég gæti sagt um þetta. Mér hefur ekki fundist nokkur maður vera til að svara fyrir þetta mál af hálfu ríkisstjórnarinnar — flutningsmaður nefndarálits í gær flytur sitt mál og er svo ekki hér í salnum í dag — þannig að ég óska eftir því að formaður nefndarinnar verði viðstaddur þessa umræðu. Mér finnst það algjört lágmark, virðulegi forseti.

Mig langar að halda aðeins áfram með þá umræðu sem átti sér stað þegar menn veltu fyrir sér ástæðum breytinganna. Við finnum ekki rökin í gögnum, við finnum þau ekki í umræðum eða í hjarta okkar og það hefur ekki verið rökstutt með neinum vitrænum hætti hvers vegna þetta eigi að gerast, hvað ráðherranum gangi til. Er hann hræddur um að hann missi stólinn og þurfi þá að vera búinn að skapa sér einhverja stöðu erlendis eða eitthvað slíkt? Getur það verið hluti af skýringunni? Er það það sem veldur því að hann treður málinu hratt fram og reynir af fremsta megni að koma því í gegn? Þetta er eina málið fyrir utan EES-málin hans sem hann er að reyna að koma að og hann hefur jú enga aðra stofnun en þessa til að setja undir sitt ráðuneyti.

Mig langaði til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji það vera eðlis- eða formbreytingu sem kemur til með að eiga sér stað verði það að veruleika að allt starfssvið Þróunarsamvinnustofnunar fari inn í ráðuneytið og hvort hann telji að það auki þá skilvirkni og gagnsæi sem nauðsynleg er og hefur verið ríkjandi í kringum Þróunarsamvinnustofnun.