145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er í sjálfu sér ekki viss um að hæstv. utanríkisráðherra vilji endilega koma þessu máli hratt í gegn. Ég held að hann skilji þetta eftir handa okkur til að rífast um til þess að hann geti síðan gert hvað svo sem hann vill gera annað en að eiga við þingið. En að þetta auki skilvirkni og gegnsæi, það tel ég algjörlega fráleitt.

Við getum fullyrt hér og nú að Þróunarsamvinnustofnun Íslands standi við sínar skuldbindingar gagnvart fjárlögum; við getum það vegna þess að þetta er sjálfstæð stofnun. Ef Þróunarsamvinnustofnun Íslands yrði lögð niður og verkefnin færð inn í utanríkisráðuneytið þá yrði mun erfiðara að nálgast þær tölur. Það yrði mun erfiðara að komast að því nákvæmlega hvernig fjármunum er útbýtt, hvernig þeir eru nýttir og hver árangurinn er. Þegar um er að ræða sérstaka stofnun er auðveldara að eiga við málaflokkinn. Það er auðveldara að eiga við starfssvið Þróunarsamvinnustofnunar Íslands út frá forsendum stofnunarinnar en ekki út frá öllum öðrum málum sem utanríkisráðuneytið vinnur að. Þetta er því augljóslega breyting til að auka ógegnsæi að mínu mati og sömuleiðis hvað varðar skilvirkni.

Það sem menn hafa verið að gagnrýna hvað varðar skilvirkni, eftir því sem ég fæ best séð, er einhvers konar samstilling í samskiptum við erlenda aðila. Þegar að þessu var spurt, burt séð frá því sem kemur fram í skýrslu Þóris Guðmundssonar, þá var sagt að ekki væri hægt að tala um þetta. Þá var farið inn í nefnd með lokað nefndarstarf og spurt út í þetta atriði og reyndist um eitt atriði að ræða, það var spurningin um það hvernig ætti að eiga samskipti við Úganda í sambandi við samkynhneigð. Það er engin ástæða til að leggja stofnun niður, virðulegi forseti, það er fráleitt.

Eðlis- eða formbreyting — mér er það ekki fullkomlega ljóst, en ég lít á þetta sem eðlisbreytingu. Þetta er greinilega hannað til þess að líta út eins og formbreyting en þetta hefur í för með sér breytingu sem ég tel líklega eðlisbreytingu.