145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er oft ekki talað um það í þessum málaflokki en auðvitað eru stofnanir með hagsmuni. Allar stofnanir hafa eigin hagsmuni og allar stofnanir sem vinna á sama sviði eru í einhvers konar samkeppni. Nú þurfum við ekkert að brigsla mönnum um hagsmunaárekstur. Starfsmaður Rauða krossins nefndi það sjálfur að við ættum að lesa skýrslu hans í ljósi þess að hann væri starfsmaður Rauða krossins og hann nefndi það vegna þess að hann er virðingarverður og hæverskur maður hjá stofnun sem vill hafa slíkt á hreinu og uppi á borðinu. Það liggur alveg ljóst fyrir. Með hliðsjón af því að allar umsagnir um þetta mál eru neikvæðar fyrir utan Rauða krossinn sem er hlutlaus en gagnrýnir samt frumvarpið, ítreka ég, þá tel ég spurningu hv. þingmanns réttmæta. Ég veit ekki um neinn sem mundi segja að þetta væri sett fram sem eitthvert heilagt hlutlaust mat, ekki einu sinni þann sem skrifaði skýrsluna sem farið er eftir.