145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:51]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Píratar segja það oft og eru nokkuð stærilátir yfir því að þeir berjist fyrst og fremst fyrir borgaralegum réttindum. Herra trúr, eru það ekki réttindi þeirra sem sitja í utanríkismálanefnd sem þingmanna að velta líka fyrir sér þegar tekinn er frá þeim rétturinn sem alltaf hefur verið helgur í nefndarstörfum, þ.e. að fá að rannsaka til þrautar umsagnir stofnana um mikilvæg mál eins og þessi? Mér finnst að Píratar og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson ættu að nota þetta tækifæri þegar þeir hafa hér varaformann utanríkismálanefndar, einn af þeim sem gegnir líka mikilvægum störfum fyrir þingið í utanríkismálum, hv. þm. Þórunni Egilsdóttur, og spyrja út í þau nýju vinnubrögð þar sem borgaraleg réttindi eru tekin af þeim sem sitja í nefndunum. Það finnst mér vera mál sem ætti að vera undir í þessari umræðu. Ég ætla ekki að fara frekar út í það.

Það væri margt fleira sem mætti ræða (Forseti hringir.) af þessu tilefni. Ég vil hins vegar bara segja að lokum (Forseti hringir.) að ég er sammála meginstefinu í ræðu hv. þingmanns.