145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:15]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Mér þykir málinu ekki sýndur neinn sómi þegar formaður nefndarinnar, eins og hv. þingmaður segir, er að koma inn í það núna. Ég ætla ekki að fullyrða að hún viti ekkert um málið en hún var að minnsta kosti ekki viðstödd þá miklu umræðu sem fór fram síðast þegar málið var hér undir. Það virðist enginn sérstakur áhugi vera fyrir þessu. Kannski er það vegna þess að fólki finnst þetta ekki mikið mál. Þetta eru í fyrsta lagi gríðarlegir fjármunir og miklir hagsmunir eru þarna undir. Ef fólk hefur ekki sannfæringu fyrir jafn gríðarlega veigamiklum málaflokki og þróunarsamvinna er þá erum við illa stödd.

Hér eru tveir þingmenn Framsóknarflokksins, varaformaður nefndarinnar og ég held að hv. þm. Karl Garðarsson sé líka í nefndinni, þannig að ég vona svo sannarlega að þau taki til máls og segi okkur af hverju þau eru svona sannfærð um að þetta sé besta leiðin. Það skiptir máli að vita viðhorf fólks til þessa máls en ég held einhvern veginn að (Forseti hringir.) sannfæringin sé lítil eða lítill áhugi.