145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:23]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki rétt að mínu mati að skýrsla annars aðilans hafi snúist eingöngu um það að málin yrðu áfram inni. Þórir Guðmundsson lagði líka til fleiri leiðir en þessa einu, við skulum ekki gleyma því. Ráðherra valdi þessa einu. Hér kemur fram að það eru færð rök fyrir endanlegu vali á kosti eitt fremur en kosti þrjú. Fram kemur, með leyfi forseta, „að það verði þróunarsamvinnu Íslands til heilla að vera eitt af þremur meginverkefnum ráðuneytisins og stuðla að sem mestri samhæfingu með öðru starfi ráðuneytisins að alþjóðlegri málefnavinnu“. Hann leggur líka til fleiri leiðir alveg eins og hinn skýrsluhöfundurinn gerir. Við skulum ekki gleyma því. Síðan er það ráðherrans að velja á endanum hvað hann telur skynsamlegast. Þess vegna finnst mér það mikilvægt að við höfum í huga að þetta snýst ekki bara um tvær persónur þó að við séum mikið að vitna í þessar tvær skýrslur. (Forseti hringir.) Fyrir mér snýst þetta gríðarlega mikið um framkvæmd, skipurit og eftirlit og þá segir Ríkisendurskoðun og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis: Svona gerum við ekki.