145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykja örlög þessa máls hér í þinginu endurspegla hvernig þingið virkar, eða öllu heldur virkar ekki. Maður hefði haldið að þetta væri mál sem þingið ætti að geta rætt eins og maður býst við að þing virki, að fólk kæmi hérna saman og rökræddi málið fram og til baka, ágæti þess eða nefndi rök gegn því, og einhvern veginn mundi þingið komast að málefnalegri niðurstöðu.

Ég tek hins vegar eftir því að um leið og maður byrjar að tala er maður sakaður um málþóf, það er eiginlega sama hvað það er. Sömuleiðis hef ég tekið eftir því að væntanlega vegna þeirra væntinga stjórnarmeirihlutans tekur hann ekki þátt. Niðurstaðan er sú að stjórnarandstaðan er að tala um þetta. Þetta lítur út eins og málþóf. Stjórnarmeirihlutinn tekur lítinn eða engan þátt og þetta lítur út eins og málþóf.

Ég velti fyrir mér hvernig við getum bætt þingstörfin þannig að þetta komi ekki upp. Mér þykir svolítið skrýtið að hlusta á þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs taka undir orð hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra Davíðs Oddssonar af öllum mönnum í málaflokkum. En það undirstrikar líka að þetta ætti ekki að vera flokkspólitískt mál. Ég velti fyrir mér hvernig við komumst yfir þennan þröskuld.