145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:33]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru háleitar spurningar. Ef maður hefði svörin við því hvernig hægt væri að bæta andrúmsloftið, hefðir og annað slíkt þá værum við búin að taka pólitíkina úr pólitíkinni að mörgu leyti og ég er ekki alveg viss um að ég vilji standa fyrir því. Mér finnst fínt að við séum ósammála og allt í lagi með það og að við skiptumst á skoðunum ef rökin eru sannfærandi á bága bóga. Við vinstri græn höfum sannfæringu fyrir því að þetta sé ekki skynsamlegt. Við teljum okkur hafa fært fram gild rök og meðal annars Ríkisendurskoðunar, þó að við hverfum alveg frá stjórnsýslufræðingum, úttektaraðilum og öðru slíku. Þetta er stofnun sem ég treysti til að fara yfir þessi mál og hún segir að þetta sé ekki skynsamlegt.

Varðandi ríkisstjórnarflokkana og þingmenn þeirra hafa þeir því miður ekki tjáð sig mikið og þess vegna óska ég eftir því að þeir geri það. Það hafa ekki komið fram nægileg rök að mínu mati til að rökstyðja málið. Annars er allt í lagi að við séum ekki alltaf sammála.