145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér umdeilt mál svo vægt sé til orða tekið. Hér hefur verið komið inn á marga þætti og menn velt vöngum yfir því hvers vegna hæstv. utanríkisráðherra fari í þessa vegferð, hver sé tilgangur hennar og hvers vegna þetta frumvarp sé lagt fram. Það kom fram áðan í umræðunni að frumvarpið er byggt á skýrslu Þóris Guðmundssonar, þáverandi starfsmanns Rauða krossins, og spurt hvort við þingmenn værum að gagnrýna vinnu þess ágæta manns. Rauði krossinn vinnur vissulega á líkum vettvangi og Þróunarsamvinnustofnun að mörgu leyti en þetta mál snýst ekkert um að gagnrýna vinnu Þóris og þá samantekt sem kemur fram í skýrslu hans, enda voru lagðar fram í þeirri áfangaskýrslu þrjár leiðir, þetta var ekki eina leiðin sem var lögð til. Við verðum að ræða þetta alveg burt séð frá þeim einstaklingi sem vann þessa áfangaskýrslu.

Eins og hefur verið nefnt líka í umræðunni þá lá vissulega fyrir önnur skýrsla frá árinu 2008 þar sem Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir fjallaði um málefni Þróunarsamvinnustofnunar. Þar komu fram röksemdir gegn því að leggja stofnunina niður og færa inn í ráðuneytið og í flestum þeirra umsagna sem komið hafa fram um frumvarpið er mælt eindregið gegn því að farið sé í þessa vegferð. Hvergi liggur nein greining fyrir á því hvaða vanda á að leysa með því að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun og færa starfsemina inn í utanríkisráðuneytið. Væri ekki ágætt að byrja á því að greina hvaða vanda er verið að leysa?

Þróunarsamvinnustofnunin hefur staðið sig mætavel og hlotið lof fyrir eins og kemur fram í frumvarpinu sjálfu og ég held að ekki sé hægt að efast neitt um það að stofnunin hefur hlotið víða lof eins og hjá DAC, þróunarsamvinnunefnd OECD. Starfsemin hefur verið tekin út margsinnis í óháðum úttektum og alltaf hefur þessi niðurstaða komið fram. Hvers vegna í ósköpunum ætlum við þá að fara að leggja hana niður og setja starfsemina inn í utanríkisráðuneytið? ÞSSÍ fer með tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands og af því fé sem fer til þess málaflokks á fjárlögum fær stofnunin um 40% framlag og utanríkisráðuneytið 60% framlag, en það veitir ýmsa aðra marghliða þjónustu og þar má nefna jarðhitaskólann og friðargæsluna.

Ég ætla að viðra aðeins það sem kom fram þegar skýrsla Þóris Guðmundssonar til utanríkisráðherra var lögð fram. Framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar veitti umsögn um skýrslu Þóris Guðmundssonar fyrir hönd stofnunarinnar og þar er velt vöngum yfir því hvað kemur fram í henni. Í umsögninni segir að í skýrslu Þóris á bls. 32 komi fram að ef almennur stuðningur eigi að vera við framlög til þróunarsamvinnu sé úrslitaatriði að hægt sé að tryggja góða nýtingu fjárins og mæla hvaða árangur hefur náðst. Því er svarað af hálfu Þróunarsamvinnustofnunar í umsögninni að stofnunin hafi lagt á þetta höfuðáherslu á undanförnum árum og það sé skjalfest m.a. í stefnuplaggi undir heitinu Sýn og starfshættir og að allar breytingar á skipulagi, áherslum og verklagi ættu að hafa þetta að markmiði.

Í umsögninni er nefnt að í skýrslu Þóris Guðmundssonar sé lagt til að kerfi árangursstjórnunar verði innleitt í allri þróunarsamvinnu. Innleiðingin og framkvæmd slíkrar nálgunar væri verulegt framfaraskref til að tryggja góða nýtingu fjár og mælanlegan árangur. Þróunarsamvinnustofnun hvetur í umsögninni ráðherra til að setja í gang vinnu við innleiðingu árangursstjórnunar en bendir um leið á að slíkt sé umfangsmikið og flókið verk og árangursstjórn þurfi að ná til þeirra verkefna sem ráðuneytið sinni núna beint eins og fjölþjóðlegri samvinnu, tvíhliða samvinnu gegnum fjölþjóðlegar stofnanir, friðargæslu, neyðaraðstoð og skóla Sameinuðu þjóðanna svo eitthvað sé nefnt. Það segir í umsögninni, með leyfi forseta: „Okkur þætti við hæfi að þetta yrði meginviðfangsefni utanríkisráðuneytisins í stjórnsýslu þróunarsamvinnu á næstu árum.“ Það er því tekið undir það af hálfu Þróunarsamvinnustofnunar og að þetta sé hægt að framkvæma miðað við stofnunina eins og hún er í dag.

Jafnframt segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„Þegar kemur að tillögum um tvíhliða þróunarsamvinnu, og þá einkum starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar, er ástæða til að doka við. Tillögurnar um að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun og minnka almennt hlut tvíhliða samvinnu (sem verður afgangsstærð miðað við tillögur skýrslunnar um aukningu í fjölþjóðlegri samvinnu, aukningu í neyðar- og mannúðaraðstoð, aukningu í „borgarasamtök“ og stofnun á nýju sendiráði, en litla aukningu á heildarframlögum)“ — og það er kannski þar sem hnífurinn stendur í kúnni í þessum efnum — „eru í undarlegu ósamræmi við það að í skýrslunni má víða sjá að einungis Þróunarsamvinnustofnunin kemst nærri því að uppfylla skilyrðin“, þ.e. skilyrðin um að tryggja góða nýtingu fjárins og mæla hvaða árangur hefur náðst.

Er þetta ekki það sem stendur upp úr, að tryggt sé að árangur náist með þeim fjármunum sem ríkið lætur í þróunarsamvinnu yfir höfuð og að nýta þá fjármuni sem eru til staðar? Þróunarsamvinnustofnun hefur vissulega staðið undir því ábyrgðarmikla hlutverki. Það segir einnig í umsögninni:

„Við teljum mjög ólíklegt að það sé líklegt til að bæta árangur í þróunarsamvinnu, samkvæmt ofangreindri skilgreiningu Þóris, að flytja framkvæmdina inn í ráðuneytið. Við bendum líka á að slík breyting væri í andstöðu við þá stjórnsýsluhefð sem hefur myndast á Íslandi að ráðuneyti annist stefnumörkun og eftirlit og að stofnanir sjái um framkvæmd …“

Bent er á til samanburðar við stjórnsýslu annarra ráðuneyta að varla væri áhugi á því að flytja stofnanir eins og Vegagerðina og Fiskistofu inn í viðkomandi ráðuneyti.

Það vill svo til að Þróunarsamvinnustofnun Íslands er eina faglega stofnunin undir utanríkisráðuneytinu sem á nú að leggja niður. Á það er bent í umsögninni um skýrslu Þóris Guðmundssonar að þverpólitísk sátt hafi verið um núverandi skipulag þróunarsamvinnu og það skipulag sé ekkert mjög gamalt. Enn fremur er tekið fram að verið sé að bíða eftir jafningjarýni á íslenskri þróunarsamvinnu frá þróunarsamvinnunefndinni, DAC. Af hverju ættum við ekki að staldra við og fá niðurstöðu þeirrar úttektar sem á að koma á næsta ári og fara ekki út í svona veigamiklar skipulagsbreytingar sem þarna eru á ferðinni?

Það hefur komið fram gagnrýni frá fleiri aðilum eins og frá Alþýðusambandi Íslands. ASÍ spyr ýmissa spurninga og spyr hvað valdi því að stjórnvöld ætli að fara þessa leið. Með leyfi forseta, vil ég vitna í umsögn ASÍ:

„Alþýðusambandið telur að með því að færa framkvæmd þróunarsamvinnu yfir á eina hendi, þ.e. alfarið á ábyrgð utanríkisráðuneytis, dvíni sá faglegi árangur sem ÞSSÍ hefur náð. Hætta er á að diplómatískar áherslur fari að blandast inn í þróunarsamvinnuna, þ.e. að framlagsríki fari að reka hana með eigin hagsmuni að leiðarljósi en ekki hagsmuni fátækra ríkja eingöngu.“

Þetta er líka mjög umhugsunarvert. Alþýðusambandið telur að áður en ákvörðun sé tekin um að færa alla alþjóðlega þróunarsamvinnu undir utanríkisráðuneytið þurfi að leita svara við mörgum spurningum sem upp koma við lestur skýrslunnar.

Í fyrsta lagi spyr ASÍ: Hver eru fagleg rök sem liggja til grundvallar áformum um sameiningu? Mér finnst þau svör hvorki hafa komið fram í nefndaráliti meiri hlutans né í frumvarpinu sjálfu. Í öðru lagi er spurt hvort önnur lögmál gildi um þróunarmál en aðra málaflokka í ljósi þess að almennt hafi stjórnsýslan þróast æ meira á þann veg að stefnumörkun og eftirlit með framkvæmd hennar sé á hendi ráðuneyta en framkvæmdin sjálf á hendi faglegra stofnana. Og í þriðja lagi er spurt um álit þróunarsamvinnunefndar OECD, DAC, á sameiningu: Af hverju er ekki beðið niðurstöðu DAC-nefndarinnar um skipulag og árangur þróunaraðstoðar, sem fyrirhugað er að komi árið 2016? Að lokum er spurt hvort athugað hafi verið hver reynsla annarra ríkja hafi verið af því að hafa sjálfstæða stofnun utan um þróunarsamvinnu, t.d. í Svíþjóð. Alþýðusambandið leggur áherslu á að fresta breytingu á þessum lögum og það sé eðlilegt að svona spurningum sé svarað af fagaðilum áður en lengra sé haldið og ákvörðun tekin í þessu stóra máli.

Hér hefur verið komið inn á það hver hlutur okkar Íslendinga er í framlögum til þróunaraðstoðar og það markmið að við leggjum fram 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu til þróunarmála. Við eigum langt í land með að ná því markmiði og höfum meira að segja bakkað því að ráðherra lagði til að til málaflokksins færu 0,23% af vergri landsframleiðslu en hlutfallið fór niður í 0,21%, hefur sem sagt lækkað um 500 millj. kr. Það kom fram í máli hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar að þarna vantaði upp á nokkra milljarða, 4 milljarða, ef því marki hefði verið náð sem samþykkt var að stefna að, að leggja til 0,7% af vergri landsframleiðslu í þennan málaflokk. Ef það hefði gengið eftir eins og samþykkt var á síðasta kjörtímabili vantaði um 4 milljarða upp á. Það er líka mjög umhugsunarvert.

Ég skil ekki af hverju hæstv. utanríkisráðherra setur hausinn undir sig í þessu máli og ætlar að keyra þetta í gegn. Við sem höfum gagnrýnt frumvarpið höfum talað um að það sé einhvern veginn hans eina mál sem hann hefur möguleika á að ná í gegn og þá skal allt lagt undir þótt rökin séu engin. Ég tek undir nefndarálit minni hluta utanríkismálanefndar en þar segir í lokin að frumvarpið sé vanbúið, illa rökstutt og að hluta til byggt á misskilningi og engar málefnalegar forsendur séu færðar fyrir því að leggja niður þessa góðu stofnun, Þróunarsamvinnustofnun Íslands, og færa starfsemina inn í utanríkisráðuneytið.

Það er algerlega litið fram hjá því áliti Ríkisendurskoðunar að stefnumótun og eftirlit eigi að fara fram í ráðuneytinu en framkvæmdin eigi að vera á hendi undirstofnana. Það er algerlega litið fram hjá þeirri gagnrýni sem Ríkisendurskoðun hefur komið fram með á þetta mál því ef fram fer sem horfir og frumvarpið verður samþykkt verður þetta allt undir sama hattinum. Ég tel það ekki vera góða stjórnsýslu og að horft sé fram hjá, eins og hér hefur verið nefnt, þeirri gagnrýni sem kom á stjórnsýslu landsins í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um hrunið. Menn eru allsendis að hunsa leiðbeiningar og athugasemdir sem borist hafa frá Ríkisendurskoðun í þessu máli. Í öllum þeim úttektum sem hafa farið fram á ÞSSÍ er talað um að hún sé fyrirmyndarstofnun ríkisins.

Ég ætla í lokin að vísa í nefndarálit minni hluta utanríkismálanefndar. Þar er vitnað í prófessor Jónínu Einarsdóttur, einn helsta fræðimann landsins á sviði þróunarfræða, en hún er ómyrk í máli í umsögn sem hún skrifar fyrir félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Hún gagnrýnir frumvarpið og leggur til að Þróunarsamvinnustofnun verði efld í stað niðurlagningar og hún kemst að sömu niðurstöðu og Davíð nokkur Oddsson á sínum tíma og gerir í niðurlagsorðum sínum tillögu um að ÞSSÍ verði ekki lögð niður heldur verði verksvið hennar víkkað út og stofnuninni falið að annast áfram í umboði ráðherra bæði tvíhliða og marghliða þróunarsamvinnu Íslands. Undir þetta get ég svo sannarlega tekið. Mér finnst þetta mál allt vera mjög slæmt því það er með óbeinum hætti verið að lýsa vantrausti á starfsemi þessarar góðu stofnunar undanfarin ár og starfsmenn hennar sem hafa starfað þar í gegnum tíðina. Ekki er reiknað með að það verði neinn sparnaður af þessu heldur virðist þetta vera eitthvað sem er á teikniborði hæstv. ráðherra og hann ætlar að leggja allt undir til að koma þessu óheillamáli í gegn og ég tel það vera mjög slæmt.