145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:57]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er svolítið snúið að ætla okkur að lesa í framsóknarheilabú hæstv. utanríkisráðherra, en það má vel vera að hann sjái það fyrir sér að hægt verði að fjölga einhverjum sendiherrastöðum eða styrkja með þessu ráðuneyti sitt. Ég held að það sé svolítið þannig. Við munum eftir því í fjárlögum 2013 þegar skera átti ansi mikið niður í utanríkisráðuneytinu. Þá hefur kannski verið leitað leiða til að styrkja ráðuneytið með einhverjum hætti og eflaust hefur verið áhugi innan ráðuneytisins að fá þessa starfsemi inn í ráðuneytið og tryggja fjármagn inn í ráðuneytið til að halda utan um það sem þar var fyrir.

Síðan kemur fram í frumvarpinu að endurráða eigi alla sem vinna hjá Þróunarsamvinnustofnun, eins og ég skil það, nema framkvæmdastjórann, hann verði ekki ráðinn — nema eitthvað hafi breyst. Ekki er litið á það sem sparnað heldur að verið sé að hagræða og gera skilvirkara. Ýmis slík orð eru notuð yfir þetta og það er ekki skilgreint neitt frekar því að engin úttekt liggur fyrir varðandi þörfina á þessu eða þá hvaða vanda þurfi að leysa í þessu máli. En menn bíta oft ýmislegt í sig. Ég tel til dæmis að hæstv. ráðherra hafi bitið það í sig að hann vilji skilja eftir sig einhverja arfleifð þegar hann hættir sem utanríkisráðherra, hvort sem hún er góð eða slæm og að þetta sé hans arfleifð, þ.e. að hafa hnoðað þessari stofnun inn í ráðuneytið, því miður.