145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:05]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir mjög skelegga útlistun á stöðu mála þegar kemur að þessu skelfilega máli um að færa Þróunarsamvinnustofnun Íslands inn í ráðuneytið. Þegar ég kem hingað inn og er að skoða þetta mál sé ég að yfirlýst markmið frumvarpsins samkvæmt nefndaráliti meiri hlutans er, með leyfi forseta: „að stuðla að aukinni skilvirkni og hagkvæmni í stjórnsýslu alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands og gera stefnumótun málaflokksins markvissari.“

Mig langar svolítið að staldra við þetta síðasta, að gera stefnumótun málaflokksins markvissari. Þýðir það ekki, ef ég á að þýða þetta yfir á mannamál, að þarna eigi að auka pólitísk ítök inni í stofnuninni þar sem stefnumótunin er greinilega ekki nógu pólitísk eða aðkoman að stefnumótuninni ekki nógu nálægt því pólitíska valdi sem ráðherra vill fá að hafa? Þá er spurningin hvort þróunarsamvinna eigi að vera pólitískt fyrirbæri. Er það mat hv. þingmanns að þróunarsamvinna, og þá fyrir Íslands hönd, eigi að vera pólitísks eðlis? Er það eðlilegt þegar við erum að tala um þróunarsamvinnu? Ég hélt alla vega, og það væri gott að fá það útlistað, að þróunarsamvinna ætti að vera þverpólitísk eða jafnvel ekkert nálægt flokkapólitík eða landspólitík yfir höfuð og að hún ætti að stuðla að velmegun manna vítt og breitt um heim. Kannski er það bara ég sem misskil þetta en mér þætti gott að fá að vita hvað hv. þingmanni finnst.