145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:07]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er spurning hvernig við greinum þróunarsamvinnu, hvort hún eigi að vera pólitísks eðlis. Ég tel að fagaðilar eigi að koma að mótun stefnunnar og því hvernig við nýtum fjármuni best handa þeim sem eiga í hlut. Ég held að það eigi fyrst og fremst að vera í höndum fagaðila og þeir eru, að ég tel, innan Þróunarsamvinnustofnunar í dag.

Síðan kemur alltaf að fjárveitingavaldinu og þá komum við að pólitíkinni, af því að við þurfum að ákveða á Alþingi hversu mikið fjármagn við ætlum að setja í þennan málaflokk. Ég nefndi áðan markmið Sameinuðu þjóðanna, að þjóðir heims ættu að stefna að því að leggja í þennan málaflokk 0,7% af vergri landsframleiðslu. Það var samþykkt á síðasta kjörtímabili en síðan dregur ný ríkisstjórn lappirnar í því og það er pólitík. Þetta er alltaf á einhverjum enda þegar kemur að því hver á að borga brúsann, þá kemur að pólitíkinni og því hvernig menn eru þenkjandi í þessum málum. Það var vakin athygli á því í umræðunni áðan að hv. formaður fjárlaganefndar var eini þingmaðurinn sem greiddi atkvæði á móti þeirri stefnumótun sem var fyrir þennan málaflokk árið 2013, svo að skoðanir eru vissulega mismunandi. Það kemur fram í fjárlögum þessarar ríkisstjórnar að hún leggur miklu minna til málaflokksins en áætlanir voru uppi um og það er pólitík. En ég held að það sé ekki efi um að fagleg stefnumótun eigi að vera innan þessarar stofnunar og í höndum fagfólks.