145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:09]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að þakka fyrir þetta svar sem var mjög skýrt og greinilegt. Það virðist sem pólitíkina sé víða að finna, sér í lagi þegar kemur að peningum. Ef þetta snýst um peninga, af hverju er það þá ekki sagt berum orðum í frumvarpinu og í nefndarálitinu? Það virðist ekki verða fjárhagsleg hagræðing af því að færa stofnunina inn í ráðuneytið heldur virðist þetta fyrst og fremst auka pólitíska miðstýringu ráðherra. Það er vert að íhuga þegar við færum eins mikilvæga stofnun í alþjóðlegu samhengi og Þróunarsamvinnustofnun er að þetta er eitthvað sem öll þróuð og siðmenntuð lönd vilja gera og eru stolt af því að gera. Þetta er eitthvað sem við eigum að vera stolt af því að leggja til alþjóðasamfélagsins, að vera meðlimir og vera virkir meðlimir í þróunarsamvinnu. Ég velti fyrir mér hvernig hægt sé að tryggja í reynd pólitískt hlutleysi stofnunarinnar þegar hún ákveður hvaða verkefni hún tekur að sér ef stofnunin fer inn í ráðuneytið. Það virðist engu máli skipta hvað við segjum eða gerum hérna inni, það breytir engu. En þetta snýst náttúrlega um það hvernig tryggjum, fyrst verið að auka pólitíska miðstýringu, að þróunarsamvinna Íslands ráðist ekki af pólitískum sérhagsmunum íslenskra pólitíkusa eða hæstv. ráðherra heldur af mannúðarástæðum og að mannúðarsjónarmiðin fái að skína en ekki verslunarhagsmunir eða bandalög sem eru búin til í einhverjum klíkum úti í heimi og við vitum ekkert um.