145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:33]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kemur kannski svolítið kaldur að þessu máli en var bersýnilega búinn að kynna sér mjög vel gögn sem fyrir liggja. Hann velti hér upp nokkrum svokölluðum röksemdum fyrir því að leggja stofnunina niður og hann komst að því að í gögnum málsins var ekki að finna neitt sem studdi þær staðhæfingar sem hæstv. ráðherra kallaði rök. Þá langar mig til þess að vekja athygli hv. þingmanns á því að í greinargerð með frumvarpinu kemur líka alveg skýrt fram að þeir starfsmenn sem hafa skrifað frumvarpið og greinargerðina gera það bersýnilega með tárin í augunum og nota hvert tækifæri til þess að hrósa stofnuninni. Þannig að á sama tíma og ráðherrann tínir fram röksemdir fyrir því að leggja stofnunina niður kemur það fram í greinargerðinni og er sérstaklega undirstrikað að stofnunin hafi, með leyfi forseta, „unnið svo gott starf á vettvangi að eftir því er tekið“.

Þar er sömuleiðis sagt með fullri virðingu fyrir úttekt og skoðun Þóris Guðmundssonar, starfsmanns Rauða krossins, sem hæstv. ráðherra lagði til grundvallar tillögu sinni, að ÞSSÍ hafi, með leyfi forseta „margsannað sig í óháðum úttektum“.

Í ljósi þessa er það náttúrlega fullkomlega óskiljanlegt hvers vegna á að leggja stofnunina niður.

Hv. þingmaður rakti það síðan vel hvernig fjárlagaskrifstofan fer yfir málið og kemst að þeirri niðurstöðu að þetta hafi engan sparnað í för með sér. Það má leiða rök að því að það hafi jafnvel kostnað í för með sér vegna þess að ráðherrann sagði hér aðþrengdur í umræðum að það mundi þurfa að setja upp einhvers konar námskeið og þjálfun fyrir starfsmenn sem eiga að fara á þessa pósta og hafa ekki aflað sér sérhæfingar.

Þá langar mig til þess að spyrja hv. þingmann: Hvaða ástæður telur hann vera fyrir því að hæstv. ráðherra kýs að leggja niður þessa stofnun sem er eiginlega fyrirmyndarstofnun, a.m.k. að mati Ríkisendurskoðunar?