145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:36]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt sem kemur fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, það eru engin sérstök rök fyrir þessu frumvarpi eða markmiðum þess færð fram í frumvarpinu sjálfu. Þau liggja alla vega ekki mjög skýr fyrir. Það má lesa um þetta meðal annars í nefndaráliti minni hluta Alþingis sem vitnar beint til þeirra umsagna sem stofnunin hefur fengið, með leyfi forseta:

„Í greinargerð með frumvarpinu er klifað á hugtökum eins og skilvirkni, hagkvæmni, samhæfingu og samlegðaráhrifum og fjallað um að draga úr óhagræði og tvíverknaði í rekstri.“

Þetta eru markmiðin í frumvarpinu, það er verið að auka skilvirknina og hagkvæmnina og draga úr óhagræði og tvíverknaði. Það eru þó engin dæmi um þetta nefnd í frumvarpinu sjálfu. Það eru engin dæmi nefnd um hvernig starfsemin er óskilvirk, um mikið óhagræði í starfseminni eða tvíverknað. Það eru engin dæmi og engin rök. Það er sagt frá því í nefndaráliti minni hlutans að engin slík dæmi hafi fengist, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst ekki að fá slík dæmi fram á fundum nefndarinnar, þ.e. nefndin hefur lagt sig fram um að leita eftir slíkum dæmum sem eru færð fram í frumvarpinu án árangurs.

Það segir einnig í áliti minni hlutans, með leyfi forseta:

„Í umræðum á Alþingi og á fundum nefndarinnar voru ráðherra og fulltrúar utanríkisráðuneytis þráspurðir um samstarf ráðuneytisins við ÞSSÍ og hvort einhver dæmi væru um að samskipti ÞSSÍ við erlenda aðila hafi ekki verið í takt við utanríkisstefnu Íslands. Fulltrúar ráðuneytisins báru samstarfinu við ÞSSÍ almennt mjög gott vitni.“

Það eru engin rök færð fyrir málinu að neinu leyti. Ég geri mér í fljótu bragði ekki nokkra grein fyrir því hvers vegna ráðherrann leggur þetta mál fram og ekki í fyrsta skipti, þetta er í annað sinn hið minnsta. Hann virðist hafa einsett sér það á sínum pólitíska ferli sem utanríkisráðherra að reisa þennan stein til (Forseti hringir.) minningar um að leggja Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Ég sé engin rök fyrir því, þau eru ekki færð hér. (Forseti hringir.) Það eru einhver önnur rök sem mér eru ósýnileg.