145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:47]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Þetta er eina dæmi sem ég fann við lestur frumvarpsins, nefndarálita og umsagna um frumvarpið, að þurft hafi að skiptast á tölvupóstum um orðalag varðandi samkynhneigð í Úganda sem þurfti að fara nokkrum sinnum milli ráðuneytis og umdæmisskrifstofu áður en það var slípað til niðurstöðu. Önnur dæmi hef ég ekki fundið í fljótu bragði og er ég þó búinn að lesa frumvarpið ágætlega og umsagnir við það og nefndarálit, bæði minni hluta og meiri hluta.

Þetta er líka eina dæmið, og ég ítreka það sem ég sagði áðan, þetta er eina dæmið sem ég veit um, og ég held að það komi fram í einhverjum af þessum gögnum, þar sem stofnun er beinlínis lögð niður og færð undir ráðuneyti. Hvaða rök eru fyrir því? Hvers vegna Þróunarsamvinnustofnun af öllum stofnunum, af hverju fær hún þessa meðhöndlun hjá hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórn og væntanlega þingmeirihluta, að vera beinlínis lög niður (Forseti hringir.) og færð undir ráðherra? Það er engin skýring á því heldur.