145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:51]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Það segir í umsögn minni hluta utanríkismálanefndar, með leyfi forseta:

„Engin dæmi komu fram við umfjöllun málsins um að nokkru sinni áður hefði stofnun verið lögð niður í heilu lagi og verkefni hennar færð inn í ráðuneyti. Á fundum nefndarinnar kom ítrekað fram ótti við að sú fagþekking og kunnátta sem byggist upp í sérhæfðum stofnunum eins og ÞSSÍ kunni að verða grunnristari, jafnvel glatast, með því að sameinast ráðuneyti. “

Þetta er almenn skoðun umsagnaraðila á þessu frumvarpi, þeirra sem hafa veitt því umsögn.

Í umsögn sem Þróunarsamvinnustofnun, þ.e. sérfræðingarnir sjálfir, veita við þessu frumvarpi segir, með leyfi forseta:

„Enn fremur bendum við á samanburð við stjórnsýslu í öðrum ráðuneytum, til að mynda stöðu Vegagerðar, Fiskistofu og fleiri, og vörpum fram þeirri spurningu hvort einhverjum dytti í hug að flytja þessar stofnanir inn í ráðuneyti með svipuðum rökum og má finna í skýrslu Þóris.“

Engum dettur það í hug. Ég get alveg veðjað við ykkur um það að engum dettur í hug að flytja aðrar stofnanir beint undir ráðuneyti með sömu rökum og færð eru fyrir þessum flutningi í frumvarpinu.

Eina skýringin sem mér hefur látið í hug koma er sú sem hv. þingmaður nefndi hér áðan í andsvari að ráðherra sé að seilast eftir meira valdi, pólitískum inngripum án eftirlits í mikilvæga stofnun eins og Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Þá er alltaf hætta á spillingu. Þegar er búið að loka mál af þessu tagi inni í ráðuneytum, bak við luktar dyr, þá er hætta á spillingu. Spilling þrífst eingöngu í leynd.