145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:53]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Hér á sér greinilega stað mjög sérstakt mál í sögu Íslands. Það virðist vera svo að þingið hafi voðalega lítil völd til þess að grípa inn í, hafi engin önnur ráð en að tala um þetta. Það virðist eins og við séum að tala fyrir daufum eyrum. Það virðist ekkert vera hægt að gera til að fá fólk sem er að vinna að þessu, hæstv. ráðherra og fylgisveina hans, til að rökræða það af einhverju viti.

Þannig að ég verð nú að spyrja hvort þetta sé lýsandi fyrir þá pólitík sem verður hér í framhaldinu, hvort við séum endalaust að ganga á luktar dyr af því að það virðist ekkert vera hægt að gera. Ég bara spyr, nýkomin á þing og verandi í smá tilvistarkreppu með það hvort þetta sé það Ísland sem við viljum hafa, hvort þetta sé sú stjórn sem við viljum hafa, að framkvæmdarvaldið geti bara gert það sem því lystir.