145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:54]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Þetta er býsna góð spurning og væri þess virði að ræða það vel og ítarlega hér í þingsal hvort það sé nákvæmlega svona sem við viljum hafa hlutina. Það má færa rök fyrir því. Já, það er svona sem íslensk þjóð vill hafa hlutina með því að vitna til kosningaúrslita t.d. fyrir hrun, lengi fyrir hrun. Þá voru kosnir til valda flokkar sem vildu hafa þetta svona og hlutirnir voru með þessum hætti þangað til það hrundi í hausinn á okkur. Þá létum við rannsaka málið, létum skoða málið, hvað í ósköpunum hafði gerst og komumst þá að því að þannig voru hlutirnir gerðir og það var rangt. Það var rangt að gera það sem þá var gert. Það var rangt að auka vald ráðherra. Það var rangt að loka málin inni með leynd. Það var rangt að efla valdið á fáum stöðum í stað þess að dreifa því.

Þá gætum við spurt aftur: Af hverju erum við þá að gera þetta núna enn á ný? Það var gerð tilraun til þess í kjölfar rannsóknarskýrslunnar að breyta þessu mynstri. Afturkallaríkisstjórnin hefur haft það (Forseti hringir.) meginmarkmið að kalla allar þær breytingar til baka og ganga núna lengra í hina áttina, m.a. með því að taka niður Þróunarsamvinnustofnun, afmá hana og fella hana inn í utanríkisráðuneytið.