145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

málefni Ríkisútvarpsins.

[15:20]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um málefni Ríkisútvarpsins. Nú var það þannig að í síðustu viku var kynnt niðurstaða skýrslu um stöðu Ríkisútvarpsins og fjárhagsstöðu þess. Það má hafa ýmis orð um þá skýrslu en það sem stingur í augun er að mikilvægi fjölmiðils í almannaþágu er staðfest í þessari skýrslu. Þetta er eini fjölmiðillinn sem fólki býðst aðgangur að, að fá þjónustu frá, fyrir 17.800 kr., þarf ekki að kaupa sér nettengingu eða síma eða eitthvað slíkt til að fá menningu og fræðslu hvar sem er á landinu.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann deili með mér þeirri skoðun að það sem nú skipti mestu, í ljósi þessarar skýrslu, sé að standa vörð um Ríkisútvarpið, menningarhlutverk þess, almannaþjónustuhlutverk þess; og að til þess að gera það sé þrennt mikilvægast. Í fyrsta lagi að tryggja að Ríkisútvarpið fái notið útvarpsgjaldsins óskipts. Í annan stað að útvarpsgjaldið verði ekki lækkað á næsta ári eins og gert er ráð fyrir og eins og hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. menntamálaráðherra hafa gefið ádrátt um. Í þriðja lagi að létt verði af Ríkisútvarpinu lífeyrisskuldbindingum sem þessari stofnun er einni gert að bera af öllum ríkisstofnunum og er vitað mál að ekki nokkur einasta önnur ríkisstofnun gæti borið. Er hæstv. forsætisráðherra sammála mér um að þetta sé eitt mikilvægasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir núna til að tryggja stöðu Ríkisútvarpsins og er hann tilbúinn að byggja almenna sátt um nákvæmlega þessi skref til þess að treysta stöðu Ríkisútvarpsins áfram?