145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

leki trúnaðarupplýsinga á LSH.

[15:30]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka svörin en vil upplýsa hæstv. ráðherra um að þann 27. október birtist frétt á visir.is þar sem kemur fram að það hafi verið félagsráðgjafi á Landspítalanum sem lak upplýsingum um vítetnömsku hjónin til Útlendingastofnunar. Fréttablaðið hafði heimildir fyrir því að þetta hefði komið fram í dagbókarfærslu stofnunarinnar.

En það er kannski ekki aðalmálið. Aðalmálið er það að lög og reglugerðir um bæði trúnaðarskyldu og upplýsingaskyldu opinberra starfsmanna eru ekki nægilega góð og í ráðuneyti hæstv. forsætisráðherra hafa legið lög sem bæta úr og skýra þessar reglur. En af einhverjum ástæðum hefur það ekki ratað hér inn á málaskrá Alþingis eða verið flutt. Þó hefur þetta verið tilbúið í heilt ár.

Mig langaði svo, í ljósi allra þessara viðburða um leka af ýmsu tagi úr stjórnsýslunni, að vita hvort hæstv. ráðherra styðji mig ekki í því að hvetja til þess að þetta mál komi sem fyrst á dagskrá þingsins úr forsætisráðuneytinu.