145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

leki trúnaðarupplýsinga á LSH.

[15:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er nú þeirrar gerðar að styðja öll góð mál og framgang þeirra flestra. Ég get hins vegar upplýst hv. þingmann um að ég hef ærinn starfa við að vinna í þeim málum sem mér er ætlað að koma fram með hér á þingi svo að ég fari ekki að hlutast til um verkefni annarra ráðherra. Það hef ég engan áhuga á að gera. (Gripið fram í.) Ég gæti það að sjálfsögðu og þakka traustið, hv. þingmaður, sem felst í þessum orðum og þessu inngripi (Gripið fram í.) — kærar þakkir, þetta er bara að verða eitt allsherjarhól. En látum af því.

Ég vil af þessu tilefni upplýsa að ég geri ráð fyrir því og ætlast raunar til þess að stjórnendur spítalans, þegar rannsókn máls sem þessa lýkur, nýti þau úrræði allra laga og reglna sem um þessi mál fjalla og beiti þeim ef ástæða er til. Þau kunna að vera flókin en hingað til höfum við getað unnið eftir þeim og ef einhver úrræði þurfa að koma til til að þeim verði breytt og þau einfölduð þá verður það mál einfaldlega að hafa sinn gang. En eins og laga- og regluverkið er í dag þá er það tæki sem við eigum að nýta og okkur ber að nýta.