145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

stöðugleikaframlag slitabúa föllnu bankanna.

[15:33]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Mig langar til að ræða við hæstv. ráðherra um samkomulag sem kynnt var í síðustu viku milli stjórnvalda og kröfuhafa föllnu bankanna, þ.e. samkomulag sem miðar að því að aflétta höftum í landinu. Svo að fólk átti sig almennilega á því þá snýst þetta fyrst og fremst um það að þrotabúin leggi fram stöðugleikaframlag — ég ætla að halda mig við þann hluta málsins — sem er fyrst og fremst í formi eigna en ekki peninga.

Það kemur fyrst og fremst fram í því að af stöðugleikaframlagi þrotabús Glitnis, sem er 229 milljarðar, eru aðeins 3 milljarðar í lausu fé. Hitt er í eignum Íslandsbanka, sem metinn er á 185 milljarða, og svo í öðrum óskyldum eignum og kröfum upp á 41 milljarð kannski. Þrotabú Kaupþings leggur ekki eina einustu krónu í stöðugleikaframlagið heldur í formi innlendra eigna og krafna, upp á 24 milljarða, í formi skuldabréfs með veði í Arion banka, upp á 84 milljarða, sem eingöngu má greiða með því að selja bankann og nota söluandvirðið til að greiða það niður og innleysa peninga. Í þriðja lagi leggur þrotabú Kaupþings fram 20 milljarða af hugsanlegu söluandvirði bankans ef hann selst á ákveðnu verði, annars ekki. Landsbankinn leggur 5 milljarða af peningum í stöðugleikaframlagið, hitt er í eignum eins og krónueignum.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra spurninga af þessum sökum: Hver verðmat Íslandsbanka upp á 185 milljarða? Slitastjórn Glitnis mat það að þeir gætu hugsanlega fengið 150 milljarða fyrir þennan banka fyrir örfáum vikum. Hver verðmetur eignirnar og kröfurnar sem þrotabúin fá að henda í okkur og við þurfum að innleysa sem peninga? Hvaða eignir eru þetta nákvæmlega og hvaða kröfur eru þetta nákvæmlega? Í þriðja lagi: Hvað er hinn aðilinn, þ.e. samningsaðilinn við stjórnvöld, þ.e. kröfuhafarnir, að fá út úr þessum samningi?