145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

stöðugleikaframlag slitabúa föllnu bankanna.

[15:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það var nú margt sem ekki var rétt farið með hér, í fyrsta lagi að það var enginn samningur gerður við nokkurn mann. Það var hins vegar þannig að slitabúin lögðu inn undanþágubeiðni til Seðlabankans og óskuðu eftir því með ákveðinni aðferðafræði að fá að vera laus undan höftum. Seðlabankinn brást við því erindi með því að hefja samráð við fjármála- og efnahagsráðuneytið sem fór síðan fyrir efnahags- og viðskiptanefnd þingsins.

Mat Seðlabankans er það að þær ráðstafanir sem slitabúin hyggjast grípa til leysi þann vanda sem hefur fram til þessa komið í veg fyrir að hægt sé að gera slitabúin upp og dreifa eignum þeirra til eigendanna, kröfuhafanna. Það er aðalatriði þessa máls. Það er alveg ótrúleg nálgun að segja að slitabúin fái að kasta eignum til ríkisins og að ríkið sitji uppi með þær eignir upp á mörg hundruð milljarða, eins og það sé alveg hrikalegt vandamál. Við ættum að vera að fagna því að við erum að komast á þann stað í fyrsta skipti frá árinu 2008 að horfa fram á lausn sem gerir okkur kleift að aflétta höftunum. Slitabúin ein og sér voru langstærsti þröskuldurinn í vegi þess að hægt væri að lyfta höftum.

Varðandi mat á virði eigna hefur það verið í höndum slitabúanna fram til þessa dags að leggja mat á virði eigna gagnvart kröfuhöfunum, gagnvart þeim sem eiga eitthvað undir því hvers virði eignirnar eru. Í tilfelli Íslandsbanka er einfaldlega um það að ræða að þetta er bókfært virði eigna bankans að frádregnum skuldum. Það er eigið fé bankans sem menn eru að tala um þarna. Samkvæmt ársreikningum bankans, þegar menn vísa í 185 milljarða er verið að vísa í tölu (Forseti hringir.) sem áætlað er að endurspegli hlut slitabúsins (Forseti hringir.) í heildareiginfé bankans eins og það verður í árslok.