145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

móttaka flóttamanna.

[15:50]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þingmaður nefndi var ákveðið að setja mjög mikið fjármagn, miklu meira en áður hefur verið gert hér á landi og raunar það mikið að það stenst allan alþjóðlegan samanburð, í það að bregðast við því neyðarástandi sem ríkir vegna flóttamannastraumsins sem að nokkru leyti er kominn til Evrópu — reyndar aðeins að litlu leyti miðað þann mikla fjölda flóttamanna sem bíður aðstoðar eða þess að geta snúið heim.

Það er rétt að minni hluti þessa fjármagns fer á þessu ári í móttöku flóttamanna en það helgast ekki hvað síst af því hversu langt verður liðið á árið þegar þessi fyrsti hópur kemur til landsins Ef þessir flóttamenn verða hér aðeins í nokkrar vikur á þessu ári, 2015, þá skýrir það hvers vegna upphæðin sem þarf til að taka á móti flóttamönnum, og fer í þennan málaflokk á árinu 2015, er lægri en hún væri ef flóttamennirnir hefðu komið fyrr á árinu.

Svo er rétt að nota tækifærið til að minna á mikilvægi þess að við og fleiri lönd leggjum sem mest af mörkum til að styðja við flóttamenn í nærumhverfi átakanna, í löndum eins og Líbanon, Jórdaníu og Tyrklandi. Það er komið á daginn — við fengum að kynnast því sem funduðum með Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og einnig þingmenn sem fóru héðan og kynntu sér ástandið í flóttamannabúðunum — að margir flóttamenn vildu gjarnan hafa tækifæri til að vera þar áfram og snúa svo heim. En á meðan þeir hafa enga von og aðstæður þar fara versnandi þá sjá þeir engan annan kost en að leggja í lífshættulega för yfir Miðjarðarhafið til að reyna að leita sér björgunar með þeim hætti. Þess vegna verða menn að setja meira í það að koma til móts við fólk á nærsvæðunum og gera því einnig kleift að koma sem flóttafólk beint þaðan.