145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

atvinnuuppbygging í Austur-Húnavatnssýslu.

234. mál
[16:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Hörður Ríkharðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Vegna stöðu minnar veit ég ýmislegt um þau verkefni sem hún nefndi og hafa verið á könnunarstigi. Það hlýtur að koma að því fyrr en seinna að umrætt álver komi af meiri þunga inn í umræðuna, en eins og það verkefni hefur verið kynnt er það álver fært um að framleiða betri vöru, það er ódýrara, hagkvæmara, minna mengandi og er að sögn tilbúið að borga orkuverð sem önnur álver treysta sér ekki til að gera og mundu loka starfseminni þess vegna.

Hvar það mál er nákvæmlega statt núna gagnvart ríkisstjórn veit ég ekki, en einhverjir fulltrúar ríkisstjórnarinnar sáu að minnsta kosti ástæðu til að vera viðstaddir undirritun viljayfirlýsingar og blessa þannig málið með ákveðnum hætti. Öll kynning á verkefninu hefur verið með þessum hætti og orkuverð er ekki sagt vera vandamál. Það hlýtur að koma að því að við þurfum að taka afstöðu til þessa kosts með skýrari hætti en verið hefur.

Gagnaverið var á sínum tíma til athugunar og var risavaxið verkefni á því sviði. Því miður fór það algerlega út af borðinu, það stóra verkefni er ekki inni í myndinni lengur og önnur hafa því miður ekki náð góðri fótfestu.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og einnig öðrum þátttakanda í umræðunni.