145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

atvinnuuppbygging í Austur-Húnavatnssýslu.

234. mál
[16:06]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil gera það sem mér láðist að gera í upphafi máls míns áðan, þ.e. að þakka heimamönnum á þessu svæði fyrir frumkvæði þeirra og atorku í þessu máli. Það er rétt sem fram kom í máli fyrirspyrjanda í upphafi að það er ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu þessa landsvæðis í ýmsu tilliti. Þar hefur varnarbarátta verið háð um margra ára skeið og því er afar jákvætt að heimamenn taki frumkvæðið eins og þeir hafa gert vegna þess að það er ekki farsælt til árangurs að við í þessum sal eða sem sitjum við ríkisstjórnarborðið ákveðum fyrir þeirra hönd hvers konar atvinnustarfsemi á að vera á hverju svæði.

Þetta svæði hefur upp á margt að bjóða, ekki síst í ferðaþjónustu og svo varðandi önnur verkefni sem nefnd eru í þeirri ágætu greiningu sem búið er að vinna. Ég tel mikilvægt að við tökum næsta skref, ekki síst út frá því sjónarhorni hvar við getum gert betur við að bæta innviði, hvort sem það varðar tengingar eins og ljósleiðara, sem eru reyndar í ágætu horfi víða á þessu svæði, eða að laga til í innviðauppbyggingu þannig að svæðið geti verið samkeppnishæft við önnur svæði um hugsanleg verkefni sem á fjörur þeirra kunna að reka. Það yrði þá í stakk búið til að hefja uppbyggingu ef hugmyndir koma upp um ákveðin verkefni.

Ég vil hrósa heimamönnum og hlakka til að vinna með þeim áfram að þessum málum.