145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

áfengis- og tóbaksneysla.

217. mál
[16:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur fyrir þá þríþættu fyrirspurn sem hún hefur beint til mín. Ég ætla að hlaupa yfir svör í því efni eftir röð þeirra spurninga sem listaðar voru upp í fyrirspurninni. Ég get sagt það í tengslum við spurningarnar að á undanförnum áratugum hefur rannsóknarstarf varðandi áfengis- og tóbaksneyslu hér á landi eflst mjög og í rauninni hefur það starf allt verið nýtt sem einhvers konar leiðarljós við alla ákvarðanatöku og stefnumótun ásamt innlendri og jafnframt erlendri sérfræðiþekkingu sem er svo reynt að nýta til þess að vinna að forvörnum, meðferðarúrræðum, fylgja eftir meðferðum, endurhæfingarvinnu og síðan nýtist öll sú þekking ríkinu, og þá sérstaklega velferðarráðuneytinu, til vinnslu við lagaumgjörð málaflokksins.

Til viðbótar þessu vil ég nefna að á vegum embættis landlæknis eru starfandi ýmiss konar fagráð, m.a. um áfengis- og vímuvarnir, og þar situr sérfræðingahópur, okkar ágætu sérfræðingar í þeim málum auk embættismanna.

Ég vil enn fremur nefna í ljósi þess sem ég sagði áðan að reynt er að byggja á nýjustu þekkingu og niðurstöðum rannsókna. Það er embætti landlæknis sem heldur utan um þá þætti fyrir okkur og hefur gert í nokkurn tíma. Það gefur reglulega út upplýsingar þar sem gerð er grein fyrir umfangi hvoru tveggja tóbaks eða áfengisnotkunar og stöðunni almennt í málaflokknum. Síðast kom út fyrir síðustu helgi Talnabrunnur frá embætti landlæknis þar sem verið var að fjalla um umfang og þróun áfengisneyslu Íslendinga á síðustu árum. Það er mjög merkilegt í rauninni að líta yfir þær upplýsingar sem þar eru birtar, þó er eingöngu um að ræða brot af þeim fjölbreyttu greiningum sem þarna er hægt að gera.

Varðandi þær rannsóknir og kannanir sem eru framkvæmdar hér á landi í samræmi við þá stefnumörkun sem hv. þingmaður nefndi má fyrst nefna að reglulega hafa verið gerðar kannanir hjá embættinu á umfangi tóbaksnotkunar. Kannanir á umfangi áfengis- og tóbaksneyslu unglinga eru í höndum Háskólans á Akureyri og Rannsóknar og greiningu sem gera reglulega kannanir meðal grunn- og framhaldsskólanema. Í könnun sem ber heitið Heilsa og líðan, sem unnin er af embætti landlæknis, er spurt um áfengisneyslu og tóbaksnotkun fullorðinna og síðan vil ég nefna að á vegum embættisins er verið að vinna að svokölluðum lýðheilsuvísum á landsvísu.

Af því að hér er tengt við krabbamein vil ég nefna að ég hef fengið í hendur drög að krabbameinsáætlun þar sem meðal annars er kveðið á um leiðir eða verður kveðið á um leiðir til þess að draga úr áfengis- og tóbaksneyslu. Ég vil nefna í því sambandi, vegna annarrar spurningarinnar um málefni barna og ungmenna, þá staðreynd að málefni sem varða börn og ungmenni undir lögaldri falla mest undir félagsmálaráðherra og Barnaverndarstofu, þannig að það er ekki á borði míns hluta ráðuneytisins að vinna með þann þátt, það er meira á verkefnasviði félagsmálaráðherra.

Ég vil síðan svara síðustu spurningu hv. þingmanns játandi, það hefur verið vísað til og er vísað til gagnreyndra aðgerða til að sporna við eða draga úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu. Ég vil í því sambandi nefna að það nýjasta sem þar hefur verið gert er að landlæknir var að opna (Forseti hringir.) nýjan vef í síðustu viku, heilsuvefinn Heilsuhegðun, þar sem er verið að koma út með upplýsingar. Þarna er (Forseti hringir.) um að ræða gagnvirka síðu sem ég hvet alla til þess að skoða og taka þátt í að byggja upp með okkur.