145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

áfengis- og tóbaksneysla.

217. mál
[16:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í þessu formi er ekki mikill tími til að ræða efnislega allar ágætar spurningar hv. þingmanns. En ég sá mér ekki fært annað en að gera stutta athugasemd við það sem hér er nefnt um bús í búðir eins og við köllum það frumvarp sem varðar áfengi í búðir, það er auðvitað málefni sem við komum til með að ræða miklu meira, eðlilega, enda stórt og mikið málefni, og hér ekki bara lýðheilsusjónarmið á ferð heldur líka spurningar sem varða menningu okkar hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Í því samhengi langar mig að nefna að það er ekki bara magn áfengis sem skiptir máli, það skiptir máli hvernig neyslan er, hvert mynstur hennar er, hvernig vandamálin brjótast út og hvernig hægt er að tækla hvert vandamál.

Þá vil ég einnig nefna annað vegna þess að mér þykir svolítið skrýtið hvernig almenningur og þingmenn líta einhvern veginn ekki á áfengi sem vímuefni, fíkniefni eða dóp. Áfengi er ekkert minna vímuefni eða fíkniefni eða dóp heldur en hass eða kókaín, það er það ekki. Áfengi veldur miklum skaða. Það eru margar hættur við efnið. Við skulum bara horfast í augu við staðreyndir þegar við tölum um þennan málaflokk. En að því sögðu skulum við öll fagna því að það sé þó alla vega löglegt.