145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

greining og meðferð barna með ADHD.

278. mál
[16:33]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda og einnig ráðherra fyrir hans svör. Ég er ánægð með þessa viðbót sem hér á að leggja til; mér skilst að þessir fjármunir fækki börnum á biðlista um 200. Ég spyr þá: Er þetta álíka fjöldi og gæti orðið á næsta ári, er þetta sama fjárveiting á báðum árunum? Af því að þetta eru nýir peningar, að mér skilst, hvaðan eru þeir teknir? Ég kom ekki auga á það í fjáraukalögunum en ég játa að ég er bara rétt búin að líta á þau.

Ég hef áhyggjur af því að okkur hefur ekki tekist vel að manna stöður sérgreinalækna úti á landsbyggðinni. Nú talar ráðherra þannig, sem er vel, að fjölga eigi sálfræðingum í heilsugæslunni. Hér er verið að byggja upp hjá Þroska- og hegðunarstöðinni og hjá BUGL, sem er mjög gott, það er mikil þörf, en þjónusta heima í héraði er annað mál. Fólk þarf að leggja land undir fót og þetta er dýrt, kostnaðarsamt og erfitt. Sér hann fyrir sér að annars staðar verði hægt að mæta (Forseti hringir.) þessum fjölskyldum, þetta eru 1000 fjölskyldur sem eru í það heila í bið í kerfinu okkar, úti á landsbyggðinni líka, ekki bara hér á stórhöfuðborgarsvæðinu — öðruvísi en til dæmis með sálfræðingana.