145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

greining og meðferð barna með ADHD.

278. mál
[16:36]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim sem talað hafa í þessari umræðu um mikilvægi þess að veita aukið framlag til Þroska- og hegðunarstöðvar, m.a. til greiningar á athyglisbresti með ofvirkni en einnig á öðrum vanda sem börn eiga við að glíma. Greiningin er mjög mikilvæg en það er náttúrlega enn mikilvægara það sem á eftir kemur, ráðgjöfin og stuðningurinn þannig að hver og einn einstaklingur fái tækifæri til að vera besta útgáfan af sjálfum sér á hverjum degi. Því vil ég leggja áherslu á það að kostnaður getur verið mikill við að taka á vandamálum eftir á en ef hver og einn getur leitað eftir upplýsingum, þekkingu og ráðgjöf eftir því sem þroskanum vindur fram þá getum við sparað ótrúlega mikið fjármagn til lengri tíma.