145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

greining og meðferð barna með ADHD.

278. mál
[16:38]
Horfa

Hörður Ríkharðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu og hæstv. ráðherra fyrir átakið og greinargóð svör. Ég hjó eftir í máli ráðherra að hann talaði um fræðslu til foreldra, atferlismótun og um mikilvægi þess að upplýsingar um stöðuna, meðferðina og allt sem tilheyrir þessu væru sem gleggstar. Ég vildi leggja áherslu á þann þátt og hvetja hann til þess að starfa sem mest að því að þessir þættir verði efldir. Í grunnskólunum á síðustu árum, tugum ára, höfum við séð að þeir foreldrar ná langmestum árangri sem virkilega leggja sig í verkefnið. Úti á landi höfum við dæmi um foreldra sem keyra hingað suður til að vera á námskeiðum, til að afla sér allrar mögulegrar þekkingar, vera svo í teymisvinnu með skólanum og þannig næst árangur. Þó að læknar og lyf séu mjög oft nauðsynleg og gagnleg þá er ekki síður nauðsynleg vinnan þar sem allir aðstandendur og kennarar koma saman með reglubundnum hætti, þar næst langbestur árangur.