145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

greining og meðferð barna með ADHD.

278. mál
[16:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna um þetta mál og þær spurningar sem hv. þingmaður varpaði hér fram.

Vissulega og skiljanlega eru skiptar skoðanir um alla skapaða hluti í þessum efnum. Ég heyri að það eru miklar væntingar til geðheilbrigðisstefnunnar sem kemur innan tíðar í þingið. Það er fagnaðarefni að þingmenn vilji fá að vinna með hana. Ég er á sama tíma fullviss um að hún mun ekki svara óskum eða þörfum allra sem um hana fjalla. Það verður þá þingsins að gera á henni þær breytingar sem það kann og vill gera. Þó að geðheilbrigðisstefnan hafi verið unnin í mjög víðtæku samráði þá gildir það sama um hana og öll mannanna verk að þau eru misjafnlega úr garði gerð.

Ég vil leggja áherslu á það að sú aðgerð sem gripið var til hér til að stytta biðlistana tekur lengri tíma en bara tvo mánuði fram að áramótum. Við horfum til þess að þessi aðgerð muni stytta biðlistana ef við vinnum að minnsta kosti 200 fleiri greiningar en til stóð.

Þegar þessi umræða kom upp leituðum við í skúffunum og skröpuðum saman fyrir þessu í ráðuneytinu frekar en að koma fram með einhverja fjáraukalagabeiðni. Ég vildi skoða alla möguleika á því að fjármagna þetta af safnliðum ef við ættum eitthvert svigrúm þar. Það gekk sem betur fer.

Ég vil nefna það líka að BUGL og Þroska- og hegðunarstöðin þjóna öllu landinu. Ég er algjörlega meðvitaður um kostnað fólks við að sækja þetta sérhæfða úrræði um langan veg. Við verðum að gera ráð fyrir að okkur takist að byggja upp á einhverjum tíma þverfaglega teymisvinnu sem geri það mögulegt að fólk geti fengið meiri þjónustu heima í héraði. (Forseti hringir.) BUGL hefur tekist í ágætri samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri að koma fyrir sérhæfðri þjónustu (Forseti hringir.) þar.

Enn og aftur: Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu.