145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa spurningu. Ég vil byrja á því að segja að ég hef oft skipt um skoðun og vil hafa það sem sannara reynist. Þegar fram koma góð og vönduð rök eins og hjá samtökunum Betri spítala á betri stað þá kynni ég mér þau rök, sem ég hvet hv. þingmann til að gera, og þá finnst mér ekki skipta öllu máli hvort þau koma fram seint, þau falla ekki úr gildi þótt þau komi seint fram ef þau lýsa þekkingu og veita betri og skýrari upplýsingar. Mér finnst rökin afskaplega sannfærandi. Eina krafan sem gerð er er að fram fari hlutlægt, óháð mat á því hvar best sé að staðsetja Landspítalann til langrar framtíðar. Við erum ekki að byggja til fimm ára eða tíu ára, við erum að byggja til 100 ára. Ég held að hv. þingmaður sé algjörlega sammála mér um það að við fjárfestum fyrir 60–100 milljarða héðan í frá í þessari byggingu og tugir milljarða á ári munu renna í þann rekstur sem þar mun fara fram. Það skiptir því mjög miklu máli hvernig haldið verður á þessu máli.

Ég held að það sé líka mjög mikilvægt að mikið hefur breyst á þeim áratugum sem hafa liðið síðan þessi staður þótti sá besti. Ég ætla ekki að draga í efa að staðurinn við Hringbraut var afskaplega ákjósanlegur á þeim tíma sem spítalinn var reistur, en síðan hefur mjög mikið breyst í skipulagi borgarinnar og dreifingu byggðarinnar. Það er gríðarlega dýrt að byggja við gamalt og úrelt húsnæði, bæði dýrt og tímafrekt og veldur miklu raski á núverandi starfsemi. Það er mjög óhagkvæmt að vera með starfsemi spítala undir 20 þökum með löngum göngum á milli eins og þetta mun verða. Það verður mikið lýti á bæjarmyndinni að vera með svona ferlíki á þessum stað sem fletur sig út yfir borgina. Ég held að útreikningarnir sem samtökin hafa lagt fram séu tiltölulega sannfærandi og kalli á frekari skoðun. Það væri ábyrgðarhluti ef við þingmenn mundum ekki hlusta á slíkar (Forseti hringir.) áskoranir. Ég skora enn og aftur á þingið og þá sem fara með málið (Forseti hringir.) að láta fara fram slíkt mat á staðsetningu spítalans.


Efnisorð er vísa í ræðuna