145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ný rannsókn Guðbjargar Lilju Rafnsdóttur og Þorgerðar Einarsdóttur, prófessora við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, sýnir sláandi niðurstöður um viðhorf og stöðu kynjanna í íslensku atvinnulífi. Samkvæmt rannsókninni sem unnin er út frá gögnum um áhrifafólk í 245 veltumestu fyrirtækjum landsins kemur fram að í 82% tilvika eru karlar í meiri hluta framkvæmdastjórnar fyrirtækjanna. Í 8,6% fyrirtækjanna er kynjahlutfallið jafnt. Konur eru innan við einn af hverjum tíu æðstu stjórnendum í fyrirtækjum landsins. Í rannsókninni kemur einnig fram að karlar í áhrifastöðum innan þessara fyrirtækja telja stöðuna vera svona af því að konur hafi ekki tíma til að taka að sér áhrifastöður vegna heimilisstarfa eða vegna þess að þær ráði ekki við álagið. Konur telja ástandið hins vegar vera svona vegna þess að ráðningar fari fram með óformlegum hætti og karlmenn treysti konum ekki eða eigi erfitt með að vinna með kvenkyns stjórnendum.

Virðulegur forseti. Þetta er gríðarlega alvarlegt og sláandi og ég skil ekki af hverju við erum ekki að tala um þetta öllum stundum. Ef þetta eru viðhorfin í atvinnulífinu, hvernig er þá staðan í opinbera kerfinu? Í eina röndina fallast mér gersamlega hendur og mig langar til að öskra á feðraveldið að hætta þessu djöfulsins rugli en þar sem ég er einstaklega góð í því að vinna undir álagi og sinni vanalega ekki heimilisstörfum án þess að gera eitthvað annað á meðan velti ég fyrir mér hvað við getum gert hérna til að breyta þessu og þá sérstaklega viðhorfunum. Getum við til dæmis gengið á undan með góðu fordæmi, getum við til dæmis tekið það alvarlega að skipa konur í áhrifastöður? Getum við til dæmis horft á staði eins og Hæstarétt, það ömurlega partí sem konur virðast ekki hafa neinn aðgang að af því að þar eru einhvers konar kynjalausir ofurkarlmenn sem láta kynjasjónarmið ekki trufla sig ólíkt okkur konunum, sem látum álag og heimilisstörf og kyn okkar þvælast fyrir í einu og öllu? Getum við til dæmis horft á hlutfall þingkvenna hér og ráðherra í ríkisstjórnum? Árið 2015 og það sem eftir er á hlutfallið að vera jafnt. (Forseti hringir.) Sjálf er ég ekki hlynnt boðum og bönnum en ég tel að kynjakvótar í stjórnum fyrirtækja hafi verið gríðarlega (Forseti hringir.) mikilvægt skref í að breyta þessum viðhorfum og ég hvet okkur öll til að líta á þessar niðurstöður mjög alvarlegum augum (Forseti hringir.) og spyrja okkur hvað við getum gert enn frekar.


Efnisorð er vísa í ræðuna