145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

störf þingsins.

[14:13]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir, með leyfi forseta:

„Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess …“

Þar segir líka:

„Aðildarríki skulu virða rétt barns sem skilið hefur verið frá foreldri eða foreldrum sínum til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við þau bæði með reglubundnum hætti …“

Það ætti ekki að þurfa að minna á að Ísland fullgilti barnasáttmálann árið 1992 og að samningurinn hefur auk þess verið gerður að lögum á Íslandi. Þó er því miður allt of oft tilefni til þess. Í lögum um fullnustu refsinga segir, með leyfi forseta:

„Forstöðumanni fangelsis ber að skipuleggja aðstæður þannig að börn geti komið með í heimsóknir og að þeim sé sýnd nærgætni.“

Umboðsmaður Alþingis hefur í umfjöllun um fangelsi bent á að samkvæmt stjórnarskránni skuli börnum tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst og að í íslenskum rétti gildi sú óskráða meginregla að hafa skuli hagsmuni barnsins í fyrirrúmi eins og mælt er fyrir um í barnasáttmálanum. Umboðsmaður bendir þar einnig á að fjölskyldulíf sé verndað í stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu. Öllum hlýtur að vera ljóst að þessir mannréttindasamningar, stjórnarskrárákvæði og lög vernda þennan rétt barna svo vel vegna þess að sálarheill, lífsgæði og tækifæri þeirra í nútíð og framtíð eru í húfi og raunar oft einnig foreldra þeirra og margra annarra aðstandenda. Hvernig má þá vera að stjórnvöld skuli láta það gerast að aðstöðu sem börnum er búin til að hitta um helgar feður sína sem dvelja á Litla-Hrauni hafi verið lokað? Er ekki augljóst að helgar eru oft langhentugasti tíminn til slíkra heimsókna og fyrir marga sá eini sem kemur til greina?

Herra forseti. Hæstv. innanríkisráðherra verður að sýna í verki að stjórnvöld taki alvarlega skyldur sínar samkvæmt mannréttindasamningum, stjórnarskrá og lögum til að vernda börn og forgangsraða í þeirra þágu með því að láta tafarlaust opna góða aðstöðu fyrir börn til að hitta feður sína á Litla-Hrauni um helgar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna