145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[14:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ræðuna og greinargerðina fyrir breytingartillögunum. Spurning mín lýtur að hinni stóru umgjörð þessa máls. Eins og við vitum öll stendur nú til að heimila slitabúunum og erlendum kröfuhöfum að fara með fé úr landi, losna undan greiðslu stöðugleikaskatts með greiðslu ýmiss konar annarra framlaga. Stóra spurningin sem við þurfum að svara og vera viss um að sé svarað með réttum hætti af stjórnvöldum er hvort réttlætanlegt sé að veita þann mikla afslátt af stöðugleikaskattinum sem gert er ráð fyrir að verði gert með samþykkt þessara stöðugleikaframlaga svo nemur einhverjum hundruðum milljarða.

Mér skilst að við meðferð málsins fyrir nefndinni hafi komið fulltrúar Indefence sem hafa viðrað efasemdir um að nægjanlega vel sé um þetta mál búið. Það er mjög mikilvægt að hlusta á allar efasemdaraddir að þessu leyti því að við höfum aðeins eitt skot í byssunni, eins og seðlabankastjóri hefur verið duglegur að minna á, og það skiptir óskaplega miklu máli að við búum þannig um málið að það verði ekki til þess að erlendir kröfuhafar sleppi úr landinu en eftir sitji þjóðin og innlend fyrirtæki og innlendir borgarar áfram í höftum. Er hv. þingmaður sannfærður um að réttlætanlegt sé að veita þann mikla afslátt frá stöðugleikaskattinum, sem felst í eftirgjöfinni og móttöku ýmiss konar annarra framlaga en peningalegra framlaga undir merkjum stöðugleikaframlaga, og telur hún að athugasemdunum hafi verið svarað sem Indefence hefur sett fram í því efni?