145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[14:38]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig rak í rogastans þegar hv. þingmaður gerði því skóna í upphafi andsvars síns að hún teldi það alls ekkert ljóst hvort stöðugleikaskatturinn eins og hann hefur verið útbúinn í löggjöf og lagður upp af hálfu ríkisstjórnarinnar hefði dugað til að leysa vandann. Ég hef ekki látið mér til hugar koma að ríkisstjórnargreiningin nyti ekki einu sinni trúar og trausts í röðum stjórnarliða. Ég hélt að þessi skattfjárhæð, með skattprósentu upp á 39%, byggði á því að menn teldu sig þá hafa róið fyrir hverja vík og væru fullkomlega öruggir um að sá skattur dygði til lausnar vandanum. En það vekur mér nokkurn ugg að heyra það úr munni hv. þingmanns að hún sé ekkert sannfærð um það að stöðugleikaskatturinn eins og hann var lagður upp í löggjöf hefði dugað til að leysa vandann. Það rekur mann þá enn frekar til þess að inna ítarlegar eftir skýringum: Hvar er röksemdafærsla fyrir þessum mikla mismun á framlögum, því að nú liggur fyrir að bein peningaleg framlög eru einhvers staðar á bilinu 300–400 milljarðar samkvæmt stöðugleikaframlegðarleiðinni en hefðu orðið rúmir 800 samkvæmt stöðugleikaskattsleiðinni? Og ef hv. þingmaður er ekki sannfærður um að seinni kosturinn hefði dugað, hvernig getur hún þá verið fullkomlega sannfærð um að fyrri kosturinn dugi, þ.e. stöðugleikaframlögin upp á miklu lægri fjárhæð, ásamt með framlögum sem felast bara í því að það er, samkvæmt yfirlýsingum stjórnvalda, verið að margtelja hluti sem hafa oft verið taldir áður og liggja fyrir, eins og fjármögnun í gegnum Landsbankabréfin, og svo líka frestun á því að menn fari með peningana sína úr landinu.