145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann: Er það hlutverk þingsins að klæðskerasníða íslenskan rétt að sérstökum kröfum kröfuhafanna, sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason kallaði hér forðum daga hrægammasjóði, t.d. varðandi það að leggja af þennan afdráttarskatt? Og sömuleiðis varðandi það að gefa þeim aukinn tíma til þess að geta farið þá frábæru afsláttarleið sem hæstv. forsætisráðherra virðist hafa haft forgöngu um að búa til og sérhanna fyrir það sem þeir kölluðu einu sinni hrægammasjóðina, og býr til mesta skattafslátt sem nokkru sinni hefur heyrst af í sögu Evrópu, 450 milljarða fyrir hrægammasjóðina? Er það okkar hlutverk ofan á 450 milljarðana að koma síðan saman til þess að gefa þeim enn meiri möguleika á að notfæra sér það og til þess að gefa þeim enn meiri skattafslátt?

Mig langar sérstaklega til þess að spyrja (Forseti hringir.) hv. þingmann út í afstöðu hennar til afdráttarskattsins. Er það okkar hlutverk að vera að vernda með einhverjum hætti þetta (Forseti hringir.) Tortólulið sem hefur falið fé sitt (Forseti hringir.) fjarri skattheimtu íslenska ríkisins í skattaparadísum eins og þeirri sem ég nefndi?