145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:13]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek það fram að ég er ekki löglærð, en ég hef heyrt ýmsa löglærða aðila halda því fram að það sé engin ástæða til að efast sérstaklega um lögmæti stöðugleikaskattsins og nú er það svo að ríki hafa auðvitað mjög ríkar heimildir til skattlagningar. Við erum bæði með söguna með okkur í því. Við erum með ýmis dómsmál sem fallið hafa með þeim hætti, þannig að það er engin sérstök ástæða til að efast um lögmæti skattsins. Ég hjó eftir því og fylgdi því eftir í umfjöllun nefndarinnar að þar voru ýmsir sem bentu á að það væri engin ástæða til þess að efast um það. En eins og ég fór yfir áðan eru þetta ólíkar leiðir og þær hafa ólíka kosti og galla. Mér hefur þó ekki þótt nein ástæða koma upp til þess að draga lögmæti stöðugleikaskattsins í efa. Það kann hins vegar að vera að einhverjir hefðu látið á það reyna fyrir dómstólum, það er ekki ólíklegt. En líkurnar sýnast mér vera yfirgnæfandi í þá átt að það hefði farið vel fyrir íslenska ríkið.