145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:15]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mikið rétt, þannig er í pottinn búið. Hins vegar kom það líka fram í umræðum hér í vor að hugsunin á bak við að hafa tvær valkvæðar leiðir væri sú að það styrkti í raun stöðugleikaskattinn. Síðan lægi það auðvitað hjá stjórnvöldum og Seðlabankanum að meta hvort framlögin uppfylltu stöðugleikaskilyrðin sem ég nefndi hér áðan að ættu að vera ófrávíkjanleg, þ.e. þessi framlög mundu uppfylla skilyrðin og vera þannig jafn gild leið. Það þótti líka styrkja málatilbúnaðinn í kringum skattinn að hafa valkvæða leið.

Það sem við horfum hins vegar fram á núna er að boltinn liggur hjá stjórnvöldum að ákveða og meta hvort þessi framlög uppfylli í raun og veru nægilega þær kröfur sem hafa verið settar af hálfu stjórnvalda. Ég varpa því fram hér að ég dreg ekki í efa lögmæti skattlagningarleiðarinnar en tel erfitt að leggja mat á það (Forseti hringir.) út frá þeim gögnum sem hafa verið lögð fyrir þingið hvort leiðin (Forseti hringir.) standist þessi skilyrði.